Rafknúinn VW up!
Á árlegum fundi Volkswagen samsteypunnar með blaðamönnum og fárfestum nýlega afhjúpaði VW frumgerð rafknúins VW up! Bíllinn verður sýndur almenningi í endanlegri framleiðsluútgáfu á bílasýningunni í Frankfurt næsta haust og um sama leyti hefst almenn sala á bílnum í Evrópu. Þetta verður fyrsti rafbíllinn sem Volkswagen fjöldaframleiðir.
Í útliti og innréttingum er rafmagns „uppinn“ sá sami og hinn hefðbundni og aksturseiginleikar mjög svipaðir. Drægið er sagt munu verða um 150 kílómetrar og á hraðhleðslustöð tekur um 30 mínútur að hlaða tóma geyma upp að 80 prósentum.
Rafmótorinn er 40 kW að afli (55 hö) en vinnslan er 210 Newtonmetrar sem er að fullu til staðar um leið og mótorinn byrjar að snúast. Viðbragðið 0-100 er 14 sekúndur og mesti hraði er 135 km á klst.
Li-ion rafhlöðusamstæðan er í gólfi bílsins undir aftursætinu. Hún rúmar 18,7 kílóWattstundir, sem duga eiga til 150 km aksturs.
Eigin þyngd raf-uppans er 1185 kg. Það er sönnu ekki mikið en þó 300 kílóum meira en venjulegur up! með þriggja strokka bensínvélinni. Hleðsluinnstungan er undir „bensínlokinu“ og hleðslukerfi bílsins leyfir helðslu frá bæði rið- og jafnstraumgjafa (DC og AC). Það þýðir að hlaða má bílinn á velflestum gerðum hleðslustöðva sem fyrirfinnast í heiminum sem stendur.