Rafmagnið sækir á í bílunum
Hlutdeild rafmagnsins sem orkugjafa fyrir bíla stækkar stöðugt í Evrópu og hlutfall rafbíla og tengiltvinnbíla í nýskráningum vex hratt og um leið lækka meðalgildi CO2 útblásturs. Samkvæmt tölulegum upplýsingum frá norskum umferðaryfirvöldum er Noregur ekki bara fremsta rafbílaland heimsins heldur líka orðið það land sem nýskráði hlutfallslega fleiri tengiltvinnbíla fyrstu þrjá mánuði ársins en nokkurt annað ríki.
Þrjár söluhæstu bíltegundirnar í Noregi á fyrsta fjórðungi ársins voru tengiltvinnbílar. Vinsælidir þeirra fara ört vaxandi sem sést best á því að í mars voru hreinir rafbílar, tengiltvinnbílar og tvinnbílar í fyrstu átta nýskráningarsætunum. Það er ekki fyrr en í níunda sætinu sem hreinn jarðefnaeldsneytisbíll fyrst birtist, en það er Skoda Octavia. Á tímabilinu stóð sala nýrra hreinna rafbíla í stað miðað við sama tímabil í fyrra og var um 18 prósent nýskráðra bíla. Nýskráningum tengiltvinnbíla fjölgaði hins vegar verulega, fyrst og fremst á kostnað dísilbíla. N‘yskráningum þeirra fækkaði um 11,4 prósent miðað við fyrsta ársfjórðungs sl. árs.