Rafmagns- Lincoln í bruna
Við sögðum frá því fyrir tveimur árum hér á fréttavef FÍB að Neil Young væri að fara að breyta gömlum risastórum Lincoln Continental Mark IV frá 1959 í rafmagnsbíl. Rokkarinn mikli lauk verkinu fyrir ekki löngu en auk þess að setja í bílinn rafmótora og rafgeyma var líka sett í hann rafstöð sem knúin er túrbínu og bíllinn um leið gerður upp hátt og lágt. En Neil Young fékk ekki lengi að njóta framtaks síns því að bíllinn er nú stórskemmdur eftir bruna.
Neil Young sýndi bílinn fyrir ekki löngu á ráðstefnu og bílasýningu sem heitir SEMA í Las Vegas. Þar vakti bíllinn og eigandi hans talsverða athygli. Neil Young hélt þar ræðu þar sem hann lýsti m.a. áhuga sínum og ást á stórum amerískum bílum og ekki síst Lincolninum sem hann gæti nú ekið án samviskubits. Hann hefði áður eytt hátt í hundrað á hundraðið en nú væri aðra sögu að segja. Túrbínan í honum brenndi nánast hvaða fljótandi eldsneyti sem væri og færi í gang þegar rafmagnið minnkar á geymunum. Svo væri honum bara stungið í samband í áfangastað og þá kæmi nýr straumur á geymana.
En nú keyrir Lincolninn ekki í bráð því að eldur kviknaði í skemmu þar sem bíllinn var geymdur við heimili Neil Young í San Carlos í Kaliforníu og bíllinn stórskemmdist. Rannsókn á orsök brunans hefur leitt í ljós að bruninn hófst í rafmagnsinnstungu sem bíllinn hafði verið tengdur við til að hlaða geymana. Rafkerfið í húsinu hafði ekki verið nægilega vel prófað og þoldi ekki álagið. Það var því enganveginn sök bílsins að svona fór, sagði Neil Young við blaðamenn BBC.
Hann sagði að í bílnum væri „svartur kassi“ eins og í flugvélum og væru sérfræðingar nú að lesa úr gögnum úr kassanum. Auk bílsins skemmdusst í brunanum hljóðfæri og magnarar og ýmsar minjar frá tónlistarferli eigandans og er skaðinn metinn upp á rúma milljón dollara. –En bíllinn verður gerður upp,- sagði Neil Young.