Rafmagns- sendibílar til S. Ameríku
Raforkustofnun suður ameríska ríkisins Uruquay – UTE - hefur keypt 30 rafknúna franska sendibíla af gerðinni Renault Kangoo Z.E. Bílarnir eru ætlaðir til afnota fyrir þá sem þjónusta dreifikerfi og rafmagnsnotendur í höfuðborginni Montevideo. UTE er ríkisstofnun sem bæði framleiðir og dreifir raforku til notenda í öllu landinu. Orkan er framleidd með ýmsu móti en í frétt frá Renault segir að sá straumur sem hlaða mun geyma þessara 30 bíla komi eingöngu frá vindmyllum UTE.
Bílarnir 30 voru afhentir við formlega athöfn í Montevido í gær, miðvikudag 15. júlí, að viðstöddum stórmennum frá bæði Uruquay og Frakklandi. Fram kom í máli stjórnarformanns UTE, Gonzalo Casaravilla, að rafbílarnir 30 ættu eftir að draga úr CO2 útblæstri frá bílaflota orkufyrirtækisins um 36 tonn á ári. Ennfremur greindi stjórnarformaðurinn frá því að nú væri svo komið að 84 prósent þeirrar orku sem UTE framleiðir, kemur frá endurnýjanlegum orkulindum. Það hlutfall færi þó hækkandi og yrði væntanlega komið í 90 prósent innan fárra ára.Um það bil þriðjungur þeirrar raforku sem framleidd er í Uruquay kemur frá vindmyllum.