Rafmagns- Volvo í Frankfurt
Volvo kynnir á bílasýningunni í Frankfurt sem opnuð verður í næstu viku, hugmyndarbíl sem gengur fyrir rafmagni og er honum stungið í samband við venjulega rafmagnsinnstungu til að hlaða geymana. Hann kemst um 100 kílómetra á rafhleðslunni en þegar strauminn þrýtur fer ljósamótor í bílnum í gang og sér rafmagnsmótorum bílsins fyrir rafmagni til að hægt sé að halda áfram för.
Bíllinn með þessum búnaði sem sýndur verður í Frankfurt er Volvo C30. Rafmótorar sem eru við drifhjól bílsins, knýja hann áfram og fá rafstrauminn frá geymum í bílnum. Ljósamótorinn er venjulegur fjögurra strokka bensínmótor sem knýr rafal sem svo hleður inn á geyma bílsins ef þeir eru við það að tæmast í akstri.
Þetta kerfi nefnist Volvo ReCharge Concept og segir Magnus Jonsson aðstoðarforstjóri rannsókna- og þróunardeildar Volvo að fólk sem ekur minna en 100 kílómetra á dag geti hreinlega sleppt því að fara á bensínstöð því að í lok dags sé nóg að stinga bílnum í samband og þá er nóg orka á geymunum næsta morgun fyrir hina daglegu notkun bílsins. Hann bendir jafnframt á að um 80% bíleigenda aki undir 100 km á dag.