Rafmagnsbíllinn komst alla leið
39. Dakar rallinu er nýlega lokið. Þau tímamót urðu að hreinn rafmagnsbíll komst alla leið í þessari einni erfiðustu rallkeppni heimsins. Hann varð í 57. sæti.
Dakar rallið sem upphaflega hófst í París og endaði í Dakar í Senegal í Afríku hefur reyndar verið haldið fjarri þeim slóðum undanfarin ár og fer nú fram í S. Ameríku. Keppnin er sérstök að því leyti að í henni ægir saman ólíkum farartækjum. Þar er keppt í rúmar tvær vikur á mótorhjólum, fjórhjólum, alls kyns bílum og meira að segja trukkum og leiðin liggur að stórum hluta um torfærar eyðimerkur, mýrar og fen, hásléttur, dali og jafnvel tinda Andesfjalla og hver dagleið er meira eða minna í kring um þúsund kílómetrar.
Skilyrði til keppni voru erfið í ár vegna veðurfars, ekki síst rigninga og mikilla flóða á vatnasvæði Rio Grande fljóts. Það þykir því marka nokkur tímamót að tekist hafi að ná alla leið á hreinum rafmagnsbíl, sem er nokkuð sem aldrei hefur tekist áður.
Rafbíllinn sem um ræðir er frá spænska nýorkufyrirtækinu ACCIONA og ber sama nafn. Hann er fjórhjóladrifinn og ökumaðurinn var Ariel Jatón og leiðsögumaðurinn var German Rolan – báðir Argentínumenn. Þótt þeir yrðu í 57. sæti þá sagði keppnisstjórinn Marc Coma að árangur þeirra væri merkur og markaði tímamót. Keppnin hefði verið sú erfiðasta hingað til. Hitinn hefði sveiflast allt frá 50 stigum og niður fyrir frostmark. Þá hefðu stórrigningar hreinlega skolað sumum farartækjunum út af keppnisleiðum á stundum. Þessar aðstæður hefðu átt sinn þátt í hinu mikla brottfalli en 26 prósent þeirra sem hófu keppni um áramótin náðu ekki í mark í Buenos Aires í Argentínu um næst síðustu helgi.
Ariel Jatón sagði í keppnislok að það að komast níu þúsund kílómetra leið á rafmagnsbíl í rysjóttu veðurfari um torfærur í fenjum á láglendi og upp í hátt í fjögurra kílómetra há fjöll sé sigur í sjálfu sér, sérstaklega fyrir rafvæddar útblástursfríar samgöngur.
Acciona-bíllinn hefur verið í byggingu og þróun í fjögur ár. Hann er með fjórhjóladrifi og með 250 kW rafmótor og sex rafhlöðusamstæðum sem hægt er að endurhlaða hverja og eina, óháð hinum. Á þaki bílsins eru 100 W sólarsellur sem bæta orku á geymana þegar sólar nýtur.