Rafmagnsbremsur –betri bremsur
08.05.2007
Tölvustýrðir rafmagnshemlar í bílum eru að verða að veruleika. Siemens VDO hefur verið að gera tilraunir með þessa hemla og segir þá lofa svo góðu að hefðbundnir vökvahemlar og ABS læsivörn muni verða úr sögunni í nýjum bílum fljótlega, jafnvel innan næstu þriggja ára. Frá þessu er greint á heimasíðu Siemens VDO og víðar.
Þetta nýja hemlakerfi nefnist EWB eða Electronic Wedge Brakes. Stífar prófanir á kerfinu hafa farið fram í vetur á ísilögðum vegum og brautum í Norður-Svíþjóð og helstu niðurstöður eru þær að kerfið svarar miklu fljótar en vökvakerfin gera og þar af leiðandi styttist hemlunarvegalengdin umtalsvert eða 15% samanborið við hefðbundna vökvahemla með ABS læsivörn.
EWB hemlarnir eru eins og hefðbundnir hemlar með diskum og klossum en í stað vökvadælunnar er lítill rafmótor sem þrýstir klossunum að hemladisknum þegar stigið er á hemlafetilinn sem í raun er viðnámsrofi, svipað og styrkstillir á útvarpstæki. Engin hemlavökvarör, -slöngur og dælur eru lengur í bílnum og ekkert ABS kerfi sem léttir á vökvaþrýstingi þegar hjól stöðvast.
Nýja raf-hemlakerfið er miklu hraðvirkara en vökvakerfin. Í vökvahemlakerfum er innbyggð seinkun á svörun milli hemlafetils og hemladæla út við hjól og ónákvæmni í hemlaátakinu. Slíkt er ekki til staðar í rafræna EWB kerfinu og sem dæmi um það mælir kerfið hemlun hvers hjóls og slakar eða herðir á hemluninni um þúsund sinnum á hverri sekúndu sem er margfalt hraðvirkara en öflugustu ABS vökvahemlar geta ráðið við.
Reynsluökumennirnir hafa sannreynt þessa miklu hraðvirkni rafræna hemlakerfisins norður í hinu ískalda Lapplandi. Á ísilagðri braut þurfti bíll með EWB kerfinu á 80 km hraða 64,5 metra til að stöðvast en samskonar bíll með venjulegum vökvahemlum og ABS þurfti 75 metra til að stöðvast. Þetta þýddi að þegar EWB búni bíllinn var stansaður var hinn bíllinn enn á 30 km hraða. Þessi munur á hemlunareiginleikum getur vissulega skipt sköpum í umferðinni.