Rafmagnsjeppi frá Audi eftir tvö ár
Eftir tvö ár kemur fyrsti fjöldaframleiddi rafbíllinn frá Audi - fjórhjóladrifinn jepplingur - á markað. Hann verður framleiddur í verksmiðju Audi í Brussel og þar verða einnig rafhlöðurnar í bílinn framleiddar. Undirbúningur stendur nú sem hæst í Belgíu og hann kallar á ýmsar aðrar breytingar í bílaframleiðslunni hjá Audi. Þannig þarf að flytja núverandi framleiðslu á Audi A1 í Brussel til Martorell á Spáni. Í Martorell fer nú fram framleiðsla á Audi Q3 en hún verður flutt til Györ í Ungverjalandi.
Nýi rafbíllinn er að mestu byggður á hugmyndabílnum Audi e-tron quattro sem sýndur var á Frankfurt bílasýningunni sl. haust. Eins og í honum verða þrír rafmótorar í nýja bílnum. Þeir fá raforkuna frá allra nýjustu gerð rafhlaða. Þær eru óvenjulega öflugar og eiga að geta fullhlaðnar skilað þessum aflmikla fjórhjóladrifna bíl meir en 500 kílómetra vegalengd og verða mjög fljóthlaðnar. Rafhlöðuframleiðsluhluti verksmiðjunnar í Brussel verður með mikla afkastagetu, enda á hann í framtíðinni að framleiða rafhlöður í fjölmarga aðra rafbíla Volkswagen samsteypunnar sem þegar eru á teikniborðunum.