Rafræn bílaleiga í París
Franski rafhlöðuframleiðandinn, bílamaðurinn og milljarðamæringurinn Vincent Bollore hleypir af stokkunum á sunnudaginn, 2. október, all sérstæðu tilraunaverkefni í Parísarborg. Verkefnið sem er samvinnuverkefni hans og borgarstjórnar Parísarborgar snýst um að leigja út litla rafbíla, sem nefnast BlueCar, til að skjótast á milli staða í borginni. Bílana má taka á einum stað og skilja eftir á öðrum. Öll afgreiðsla verður rafræn og á myndbandinu hér má sjá hvernig kerfið er hugsað.
Bílarnir verða staðsettir á sérstökum hleðslustæðum í borginni og að notkun lokinni er þeim skilað á hleðslustæði. Leigutakar kaupa sér einskonar áskrift að bílunum og fá afhent sérstakt snjallkort. Með því komast þeir inn í bílana og geta gangsett þá og tölvukerfi milliflærir greiðslu fyrir notkunina.
Þessi rafræna útleiga og samnotkun á smábílum er í raun viðbót við rafbílaleigu Vincents Bollore sem þegar er starfandi og nefnist Autolib. Heils dags akstur kostar 10 evrur fyrir BlueCar. Stysta tímaeining sem rukkað er fyrir er hálftíma notkun og kostar hálftíminn fjórar evrur.
Rafræna smábílaleigan er byggð á hugmynd Bertrands Delanoe borgarstjóra Parísar um samnýtingu almennings á reiðhjólum. Henni var hrint í framkvæmd í París árið 2007 og hefur síðan verið tekin upp í fjöldamörgum evrópskum stórborgum með ágætum árangri.
Talsmaður þessa rafbílaverkefnis segir við fréttamann Reuters að tilgangurinn með því sé í raun tvíþættur: Annarsvegar að fækka bílum í borginni og draga þannig úr umferðarstíflum á götunum og meðfylgjandi töfum og vandræðum. Hins að gera fólki mögulegt að hafa aðgang að bíl nánast hvenær sem það þarf á að halda án þess að þurfa að vera seldir í þá ánauð að þurfa að eiga og reka einkabíl með öllum þeim kostnaði og vanda, ekki síst bílastæðavanda, sem er fylgifiskur bílaeignar í stórborg.
BlueCar smábílarnir eru með annari gerð rafhlaða en þeim Lithium-Ion rafhlöðum sem oftast eru í rafbílum. Bollore rafhlöðurnar eru lithium-metal-polymer og byggjast á annarri tækni. Drægi bílanna á rafhleðslunni er allt að 250 km í borgarakstri og um fjórar klst. tekur að hlaða tómar rafhlöðurnar. Talsmaður Bollore segir að rafhlöðurnar séu mun öruggari en líþíum jóna rafhlöðurnar, þær þoli betur hleðslu og afhleðslu og sé miklu síður hætt við ofhitnun.
Upphafs-bílaflotinn á sunnudaginn verður 66 BlueCar bílar sem fyrirfinnast munu á 33 stöðum víðs vegar um París. Ef vel tekst til er ætliunin að fjölga bílunum upp í allt að 3000 bíla sem verður að finna á þúsund stöðvum um alla borgina fyrir árslok 2012.
Bollore hefur um margra ára skeið sýnt athyglisverða rafbíla á stóru evrópsku bílasýningunum í París, Genf og Frankfurt. BlueCar bíllinn var fyrst sýndur í Genf árið 2005. Hann er fjögurra manna og hannaður af Pininfarina á Ítalíu. Bíllinn er afar einfaldur í akstri og notkun og allt viðkomandi því er skýrt í honum og utan hans á einfaldan og auðskiljanlegan hátt í máli og myndum.
En áður en bíll er leigður þarf fólk að mæta í höfuðstöðvar Autolib í miðborg Parísar eða aðra afgreiðslustaði sem verða í næsta nágrenni við bílastæðin þar sem bílana verður að finna. Framvísa þarf gildu ökuskírteini, vegabréfi eða öðru gildu persónuskilríki og kreditkorti. Þá fær leigutaki afhent snjallkortið áðurnefnda eftir að hafa greitt frá 10 upp í 144 evrur eftir því hversu mikið skal nota bílana. Kortið gildir síðan eins lengi og inneign er til staðar að baki því, eða allt frá einum degi upp í eitt ár, allt eftir efnum og ástæðum leigutakans.