Rándýrir málmar í rafmótorum fyrir bíla
Vísinda- og tæknifólki Toyota Motor Corp hefur tekist að þróa tækni sem gerir mjög sjaldgæf og dýr jarðefni óþörf í tvíorkubílum og rafbílum. Reuters fréttaveitan greinir frá þessu og hefur eftir japönskum fréttamiðli.
Toyota hefur lengsta reynslu bílaframleiðenda í því að byggja tvíorkubíla eins og Toyota Prius. Í Prius er bæði bensínvél og rafmótor og það er ekki síst í rafmótorum sem hin sjaldgæfu efni hafa verið nauðsynleg fram að þessu. Og Kínverjar hafa haft einokun á þeim flestum. Hin nýja tækni Toyota er sögð komast að fullu inn í framleiðsluna á næstu tveimur árum eða svo.
Hin sjaldgæfu efni sem um ræðir eru t.d. málmarnir neodymium og dysprosium. Þeir eru notaðir í öfluga segla í rafmótorum sem knýja tvinn- og rafbíla. Málmarnir dýru eru því veigamimkill þáttur í þeirri viðleitni að minnka eldsneytiseyðslu bíla og draga úr úblæstri gróðurhúsalofts. Kínverjar framleiða nú um 95 prósent þessara sjaldgæfu jarðefna og hafa varað kaupendur sína við yfirvofandi skorti á hráefni og stórhækkuðu verði.
Stærstu viðskiptavinir Kínverja um þessa sjaldgæfu málma eru Japanir en þeir kaupa um þriðjung heimsframleiðsunnar. Japanir hafa því leitað logandi ljósi að möguleikum á því að spara þessi efni sem allra mest bæði í bílaframleiðslunni sjálfri og með því að endurvinna úr sér gengna rafmótora sem allra mest og best.