Rangar eyðslutölur
Bandarískir bílakaupendur hafa gerst tregari til þess að kaupa bíla frá Hyundai og Kia eftir að framleiðandi neyddist til að viðurkenna að hafa ýkt verulega sparneytni bílanna og varð að endurgreiða eigendum miljón bíla mismun raunverulegrar eyðslu og uppgefinnar.
Í byrjun þessa mánaðar viðurkenndu forsvarsmenn Hyundai í Bandaríkjunum að hafa ýkt talsvert sparneytni bíla sinna og sagt að þeir kæmust lengra á hverju bensíngalloni en eigendum um það bil milljón bíla var mögulegt að leika eftir. Bílarnir milljón voru og eru í umferð í Bandaríkjunum og Kanada. Þeir höfðu verið auglýstir rækilega sem mjög sparneytnir. Kaupendur þeirra komust svo að því að rauneyðslan var langt frá þeim eyðslutölum sem birst höfðu í auglýsingunum. Málið hefur rýrt álit almennings á bílunum, eftirspurn hefur minnkað og verð hefur lækkað umtalsvert á Hyundai og Kia bílum.