Rangt eldsneyti á bílinn
Margur bifreiðaeigandinn kannast við mistök við eldsneytisáfyllingu en þau eru í langflestum tilfellum á þann veg þegar að fólk setur bensín á dísílbíla sína. Mistök á hinn veginn eru sjaldgæfari.
Ef fólk man eftir að gæta að sér þegar það tekur eldsneyti þá skal hér minnt á eftirfarandi: Bensíndælustútarnir eða dælubyssurnar á bensínstöðvunum eru með grænum lit en dísilbyssurnar eru svartar. Áfyllingarstútarnir eða –hálsarnir á bensínbílum eru þrengri en áfyllingarhálsarnir á dísilbílum. Dælustútarnir á bensíndælunum á bensínstöðvunum eru sömuleiðis grennri en stútarnir á dísildælunum.
Það þýðir að hinir grönnu og grænu bensíndælustútar komast ofaní áfyllingarstúta dísilbílanna en hinir sveru svörtu dælustútar dísilolíunnar komast ekki ofan í þrönga tankhálsa bensínbílanna. Af þessum ástæðum eru lang flest eldsneytismistökin sem gerð eru, á þann veg að bensíni er dælt á dísilbíla og það getur orðið dýrt spaug.
Hvað ef?
En hvað er rétt að gera þegar maður uppgötvar að hafa dælt bensíni á tankinn? Í fyrsta lagi, settu bílinn ekki í gang. Ef þú nærð ekki að uppgötva mistökin en setur í gang og ekur af stað, muntu fljótt finna að gangurinn í dísilvélinni breytist. Fyrstu metrana brennir vélin þeirri olíu sem er í olíukerfinu sjálfu, í síunum og leiðslunum frá eldsneytistanknum en svo byrjar bensínið að koma inn í kerfið og þá dregur úr vinnslunni, gangurinn verður óeðlilegur og loks drepst á vélinni. Þá þarf ekki lengur vitnanna við.
Ef þú hins vegar uppgötvar mistökin fljótt og ert einungis búin(n) að dæla kannski tveimur til kannski allt að sex lítrum af bensíni í hálftóman tankinn sem kannski tekur 60 lítra eða meir, þá getur það sloppið að fylla bara tankinn með rétta eldsneytinu. Hlutfall ranga eldsneytisins í blöndunni er þá svo lítið að hætta á skemmdum er vart eða ekki til staðar. Hringdu samt í einhvern sérfróðan aðila, t.d. hjá þjónustuveri viðkomandi bílaumboðs og spurðu hvort öllu sé óhætt.
50 þúsund kall í súginn
Að fylla tankinn með röngu eldsneyti kostar mikið fé. Dæla þarf ranga eldsneytinu af geyminum og síðan þarf að eyða því, vegna þess að það er ónothæft. Þá þarf að skola eldsneytiskerfið út, skipta um síur og loks að kaupa nýtt rétt eldsneyti. Sjálf vinnan við hreinsunina tekur frá 1-3 klst.
Að fylla röngu eldsneyti á tankinn getur því auðveldlega kostað nokkra þúsundkallana. Í fyrsta lagi er það ranga eldsneytið sem dælt er af geyminum og síðan það rétta að hreinsun lokinni. Hvorttveggja fer auðveldlega í um 20 þúsund krónur. Þá bætist við kranabíll á verkstæði með bílinn og vinna við tæmingu, síuskipti og útskolun sem kostar um og yfir 30 þúsund krónur ef atvikið á sér stað um helgi. Þar með er 50 þúsund kallinn farinn í súginn.
En þetta er verðið ef engar skemmdir hafa orðið á olíuverki og háþrýstidælu vélarinnar. Ef slíkt hefur gerst er málið miklu miklu verra en þetta. Dísilolían hefur nokkra smureiginleika sem bensínið hefur ekki. Þess vegna getur það gerst að háþrýstidælan í innsprautunarkerfi bílsins hafi skemmst við að fyllast allt í einu af bensíni og sérstaklega þó ef reynt hefur verið að starta bílnum í gang eftir að hann drap á sér, eða jafnvel að draga hann í gang. Þá getur viðgerðakostnaður hlaupið á fleiri tugum, jafnvel hundruðum þúsunda króna.
Verð fyrir árið 2022:
Uppdælingar á eldsneyti – Þjónustuaðilar
N1. Milli 8.00-17.00 - 26.190kr. (klukkutíminn). – Eftir klukkan 17.00- 8.00 – 26.190 kr. (+11.490kr. Á dagvinnutaxtann)- Stórhátíðardagar 26.190 kr.- (+18.690 kr. Á dagvinnutaxtann)– Sími: 660-3350.
Olíudreifing. – Milli 8.00-17.00 – 23.320 kr. – Eftir klukkan 17.00 til 8.00 – 59.000 kr. Helgar: 59.000 kr. – Sími: 550-9900.