RAV4 rafbíll sýndur í L.A. 6. maí

Þann 6. maí nk. ætlar Toyota að sýna fjöldaframleiðsluútgáfu af Toyota RAV 4 rafbíl. Bíllinn er til orðinn í samvinnu Toyota og Tesla og er það Tesla sem sett hefur í bílinn rafmótorinn, geyma og annan búnað. Bíllinn er hreinn rafbíll og er drægi hans á hleðslunni sagt vera 160 kílómetrar. Bíllinn verður sýndur á 26. rafbílaráðstefnunni (26th International Electric Vehicle Symposium) sem haldin verður í Los Angeles 6.-8. maí.

Þessi nýi RAV4 rafbíll er á sinn hátt ávöxtur samstarfs Toyota og Tesla en maí 2010 keypti Toyota hlutabréf í Tesla rafbílaframleiðandanum í Sílíkondal fyrir 50 milljónir dollara. Toyota framleiðir hefðbundna bensíndrifna RAV 4 bíla fyrir N. Ameríkumarkaðinn í verksmiðju sinni í Kanada.

http://www.fib.is/myndir/Tesla-motors.jpg

Þeir bílar sem síðar eiga eftir að verða rafbílar eru sendir véla- og gírkassalausir suður í Silíkondal í Kaliforníu þar sem Tesla setur í þá rafmagnsdriflínuna, geymana og annað sem til þarf í rafbíl.

Toyota hefur um langt skeið leitað leiða til að draga úr eldsneytisbruna bifreiða og kom lang fyrst bílaframleiðenda fram með tvíorkutæknina (rafmagn-bensín) í Toyota Prius. Haustið 2010 sýndu Toyota og Tesla fyrstu frumgerðir rafknúinna RAV4 EV. Alls voru byggðir 35 slíkir bílar og hafa þeir nú verið í reynsluakstri í rúmt eitt og hálft ár til að prófa tæknibúnaðinn við raunverulegar aðstæður. Þessum frumgerðum hefur nú mörgum hverjum verið ekið yfir 200 þúsund kílómetra vandræðalaust.

En þessar frumgerðir RAV4 frá haustinu 2010 eru fjarri því fyrstu og einu rafbílarnir sem Toyota hefur gert tilraunir með. Á árunum 1997-2003 voru nokkur hundruð rafmagns-RAV4 byggðir og settir í reynsluakstur. Bílarnir voru lánaðir eða leigðir út í Bandaríkjunum til ýmissa nota, til að öðlast reynslu af þeim í sem fjölbreyttasti notkun. Þessir tilraunabílar voru búnir 27 kílóWattstunda rafhlöðusamstæðu af svokallaðri NiMH-gerð (nickel–metal hydride), eða samskonar og rafhlöðurnar sem til þessa hefur verið að finna í Prius. Rafhlöðurnar entust afskaplega vel og reyndust enn vera í ágætu lagi eftir meir en 200 þúsund kílómetra akstur þegar tilrauninni lauk formlega. Drægi þessara bíla reyndist vera á milli 160 og 190 km á hverri hleðslu. Tilraunabílarnir voru að tilrauninni lokinni síðan seldir einkaaðilum í því ástandi sem þeir voru. Ekki var talið borga sig að endurnýja í þeim rafgeymana þar sem verð þeirra var vel yfir virði bílanna sjálfra.