Rekinn fyrirvaralaust
Fyrrverandi forstjóri Volvo, Stefan Jacoby segir í viðtali við Dagens Industri í Svíþjóð í dag að hann hafi verið rekinn úr starfi fyrirvaralaust, meðan hann lá á Sahlgrenska sjúkrahúsinu í Gautaborg að jafna sig eftir hjartaáfall sl. haust. Þetta tækifæri hafi menn notað til að bola sér burt úr óskastarfinu meðan hann átti erfitt með að bera hönd fyrir höfuð sér.
Jacoby er Þjóðverji. Hann var sölustjóri Mitsubishi í Evrópu í upphafi aldarinnar. Þaðan fór hann til Volkswagen og varð forstjóri VW í Bandaríkjunum á síðari hluta fyrsta áratugarins uns hann var ráðinn forstjóri Volvo. Hann segist í viðtalinu við DI að hann hafi aldrei fengið neina skýringu á því hversvegna hann var rekinn og brottreksturinn hafi verið óréttlátur gagnvart sér, enda hafi stjórn og nýr forstjóri í engu vikið frá þeirri stefnu sem hann markaði fyrirtækinu.