Rekstur bifreiða veigamikill þáttur í vísitölu neysluverðs
Hagstofan hefur birt vísitölu neysluverðs miðuð við verðlag í febrúar 2018 og er hún 449,5 stig sem er hækkun um 0,60% frá fyrra mánuði og 2,3% hækkun síðustu 12 mánuði. Rekstur bifreiða er veigamikill þáttur í vísitölu neysluverðs.
Hagstofan safnar mánaðarlega gögnum um verðlagsþróun 16 undirflokka sem saman mynda bifreiðavísitölu sem aftur er hluti vísitölu neysluverðs. Bifreiðavísitalan hækkaði um 0,3% frá janúar en stendur í stað miðað við vísitöluna fyrir einu ári. Veigamesti þátturinn í bifreiðavísitölunni er verð á nýjum bílum og næst mest vægi hefur eldsneytið. Varahlutir, hjólbarðar, viðgerðir og viðhald koma þar á eftir.
Það er áhugavert að bera saman vísitölu bifreiðakostnaðar síðustu 12 mánuði. Rekstur bifreiða breytist ekki miðað við 12 mánaða samanburð. Undirflokkar bifreiðavísitölunnar hafa sveiflast nokkuð á milli mánaða á liðnu ári. Það sem hefur lækkað vísitöluna er lækkun nýrra bíla um 0,8%, lækkun hjólbarða um 19% og lækkun varahluta um 5,4%.
Nokkrir liðir í rekstri bifreiða hafa hækkað umtalsvert umfram vísitölu neysluverðs á liðnu ári. Mest mælist hækkunin á bifreiðaskoðun eða 6,8%. Viðgerðir og viðhald hefur hækkað um 6,6%, ábyrgðartryggingar bíla um 3,2% og eftirlitsskoðanir um 5,7%. Þjónusta hjólbarðaverkstæða hefur hækkað um 1,1% sem er umtalsvert minna en önnur bílaþjónusta þar sem vinnuliðurinn vegur þungt.
Það má greina áhrif innkomu Costco stórverslunarinnar í bifreiðavísitölunni. Costco býður ekki upp á margar bílavörur en hefur verið með nokkur þekkt vörumerki á boðstólum m.a. smurolíur, rafgeyma og hjólbarða. Verð á dekkjum og hjólbarðaþjónustu hjá Costco hefur haft áberandi áhrif á dekkjaverð og verðskrá hjólbarðaverkstæða.