Renault Clio sigurvegari í Sparaksturskeppni FÍB og Atlantsolíu 2016
Eldsneytiskostnaður bílsins sem sigraði í sparaksturskeppni FÍB og Atlantsolíu sl föstudag reyndist einungis 2.740 krónur á rúmlega 380 km langri keppisleiðinni Reykjavík-Akureyri. Bíllinn er Renault Clio fólksbíll með 1,5 l dísilvél. Hann er fimm manna fólksbíll og eyddi sem svarar 4,02 lítrum á hundraðið. Ökumaður hans var Sigurður Stefánsson og er hann því nýkrýndur Íslandsmeistari í sparakstri.
Sjálf keppnin, hin árlega Sparaksturkeppni FÍB og Atlantsolíu, fór fram á sl. föstudag. Þúsund þjala smiðurinn Ómar Ragnarsson ræsti fyrsta bílinn til keppni kl. 9.00 á föstudagsmorgninum frá eldsneytisstöð Atlantsolíu við Húsgagnahöllina að Bíldshöfða og síðan hina 18 þátttökubílana hvern af öðrum með tveggja mínútna millibili.
Ekið var sem leið lá milli Reykjavíkur og Akureyrar alls rúmlega 380 kílómetra með hálftíma viðkomu á miðri leið að Gauksmýri í Húnavatnssýslu. Í sérhverjum keppnisbíl var ökuriti frá Arctic Track sem skráði nákvæmlega allar hreyfingar bílsins meðan á keppni stóð, þar á meðal hraða hans hverju sinni. Fyrir tilstilli búnaðarins mátti fylgjast með sérhverjum keppnisbílanna í beinni útsendingu á Netinu meðan á keppni stóð. Samkvæmt keppnisreglum bar ökumönnum að fara í hvívetna eftir umferðarlögum og -reglum að viðlögðum refsistigum sem umreiknuð eru í auka-eldsneytiseyðslu.
.