Renault Logan á Þýskalandsmarkað 17. júní nk.

The image “http://www.fib.is/myndir/Logan.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Renault Logan
Hinn nýi smábíll frá Renault; Renault/Dacia Logan sem í upphafi var fyrst og fremst var hugsaður fyrir A-Evrópu, Asíu- og Afríkumarkað verður fáanlegur í Þýskalandi frá og með 17. júní nk. Ódýrasta gerð Logan mun kosta 7.200 evrur eða um 600 þúsund ísl. krónur.
Logan er smíðaður í Rúmeníu í verksmiðjum Dacia, sem eru að fullu í eigu Renault. Logan er hannaður hjá Renault og markmiðið af hálfu Renault með Logan var frá upphafi að framleiða ódýrasta bílinn í Evrópu. Þrátt fyrir hið lága verð má vænta þess að þessi smábíll sé tiltölulega öruggur. Hinn nýi Renault Modus sem að nokkru er byggður úr sömu hlutum og Logan fékk t.d. fimm stjörnur í árekstrarprófi EuroNCAP og hinn nýi Renault Clio fékk fjórar. Sama er að segja um nýjustu gerð Nissan Micra sem er byggð á sama undirvagni og Renault Logan, hlaut fjórar EuroNCAP-stjörnur. Í Renault Logan eru þriggja punkta bílbelti við öll fimm sæti, tveir loftpúðar eru fram í honum og ABS hemlar með tölvustýrðri átaksjöfnun milli hjóla eru staðalbúnaður.
Staðalvélin í Logan er 1,4 l 75 ha. bensínvél, sú sama og í Renault Clio. Hámarkshraði er 162 km./klst. og hröðun frá 0-100 km./klst. er 13 sek. Gírkassinn er fimm gíra, handskiptur.
Renault hefur áður sagt að Logan verði framleiddur í fleiri heimshlutum en Evrópu og að heimsframleiðslan verði 700 þúsund bílar á ári fyrir 2010.
Áhugi fyrir Logan er reyndar mjög mikill í Evrópu. Sem dæmi um hann er að í upphafi þessa árs höfðu verið lagðar inn 30 þúsund pantanir hjá evrópskum Renault umboðum. Bílasala nokkur í Belgíu komst yfir 45 bíla alveg nýlega og auglýsti þá í dagblaði. Allir bílarnir seldust sama morguninn og auglýsingin birtist.