Renault-Nissan + Mercedes
Samvinna milli Renault/Nissan og Mercedes Benz er að hefjast. Hún mun felast í því að fyrirtækin þróa í sameiningu nýja bíla, einkum smábíla og rafbíla. Samvinnan er undirstrikuð með því að fyrirtækin eignast 3,1 prósents hlut í hvert öðru. Þetta var tilkynnt á blaðamannafundi í Brussel í gær, miðvikudag. Á myndinni handsala þeir Carlos Ghosn forstjóri Renault-Nissan t.v. og Dieter Zetsche forstjóri Benz samvinnuna
Þessarar nýju samvinnu mun fyrst gæta í nýjum gerðum Smart og Renault Twingo bíla sem verða með sömu eða svipuðum innviðum og tæknibúnaði. Þessi tækni mun einnig sýna sig í minni gerðum Mercedes Benz bíla í náinni framtíð. Í stærri bílunum mun hennar fyrst verða vart í Infiniti bílunum frá Nissan sem verða með fjögurra og sex strokka Benz dísilvélum en dísilvélar eru einmitt forsenda þess að þessir bílar nái fótfestu á evrópskum bílamarkaði.
Mercedes-Benz Vito verður svo þegar fram líða stundir í boði með vélum og gírkössum frá Renault-Nissan auk þess sem þróaðar verða nýjar sameiginlegar gerðir létta vörubíla, sendibíla og fjölnotabíla.