Renault-Nissan rafbílar til Danmerkur 2011
Renault rafbílarnir sem koma til Danmerkur 2011 verða af ýmsum stærðum og gerðum, þeirra á meðal þessi rafbíll sem sýndur var á bílasýningunni í Genf fyrir skömmu.
Renault-Nissan samsteypan hefur gengið til samstarfs við dönsk stjórnvöld og orkufyrirtækið DONG um rafknúnar samgöngur í Danmörku. Verkefnið nefnist Better Place og í því felst að Renault-Nissan skaffar dönskum almenningi rafbíla, stjórnvöld heita því að veita góðan afslátt af hinum ofurháu skráningargjöldum sem lögð eru á bíla í landinu og orkufyrirtækið DONG kemur upp raf-áfyllingar- og geymaskiptistöðvum um allt land. Verkefnið Better Place hefst 2011. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem Renault-Nissan sendi til fjölmiðla í gær.
Samkvæmt fréttinni verða bílarnir 100% rafbílar sem standast eiga flestallan samanburð við sambærilega bensínbíla. Þeir verða búnir háþróuðum líþíum-jónarafhlöðum sem tilkomnar eru út úr samstarfi Nissan og NEC rafeindafyrirtækisins í Japan. Rafhlöðurnar eru bæði léttar, geyma í sér mikla orku, eru fljóthlaðnar og endast lengi. Þegar er búið að þróa rafhlöðurnar og framleiðslutækni þeirra, sem og samsetningartækni rafbílanna þannig að fjöldaframleiðsla er þegar möguleg, en fjöldaframleiðsla hefur í för með sér lægra einingaverð.
Til þess að vit sé í því að markaðssetja rafbílana þarf orkudreifikerfi fyrir þá að vera til staðar þegar þeir koma í almenna neytendadreifingu árið 2011 auk þess sem skattalegir hvatar verða að vera til staðar fyrir væntanlega kaupendur og notendur bílanna. Dönsk stjórnvöld hafa heitið því að smíða skattaumhverfið en orkufyrirtækið DONG byggir hleðslu- og geymaskiptistöðvar um alla Danmörku í samvinnu verið verkefnisstjórn Better Place Danmark.
„Með þátttöku í þessu verkefni vonumst við til þess að stuðla að því að minnka verulega útblástur CO2 frá bílum í Danmörku. Við vonumst einnig til að með þessu verkefni náum við betri tökum á því að geyma og nýta betur fremur óstöðuga orkuna frá vindmyllum þar sem rafbílarnir eru einkum hlaðnir upp á nóttunni þegar orkunotkunin er miklu minni en að deginum. Þetta þýðir mun betri nýtingu á orkulindum og orkuverum okkar sem verður umhverfinu til góðs,“ segir Anders Eldrup, forstjóri DONG Energy við fjölmiðla.
Upphafsmaður Better Place verkefnisins er Ísraelskur tækni- og viðskiptamaður að nafni Shai Agassi.