Renault-Nissan stærstir í rafbílunum
Renault-Nissan samsteypan hefur selt samtals 200 þúsund rafbíla og er markaðshlutdeild þeirra í rafbílum í heiminum 58 prósent. Samtals hefur bílunum 200 þúsund verið ekið 4 þúsund milljón kílómetra að því áætlað er og sparað með því bruna á 200 milljón lítrum af bensíni (og dísilolíu) og 450 milljón kíló af CO2 útblæstri. Fjögur þúsund milljón kílómetrar jafngilda 100 þúsund hringferðum umhverfis jörðina og 200 milljón lítrar af fljótandi jarðefnaeldsneyti duga til að fylla 80 Ólympíukeppnissundlaugar. Þetta kemur fram í frétt frá Renault-Nissan sem send var út í morgun.
200 þúsundasti rafbíll Renault-Nissan var afhentur kaupanda fyrr í þessum mánuði en þá voru fjögur ár frá því að almenn sala á Nissan Leaf, fyrsta fjöldaframleidda rafbíl bílasögunnar hófst. Síðan þá og enn þann dag í dag er Nissan Leaf mest seldi rafbíllinn í heiminum.
Salan á rafbílum vex hröum skrefum um þessar mundir eftir að hafa farið rólega af stað fyrir fjórum árum. Frá því í byrjun þessa árs og til og með fyrstu viku nóvembermánaðar hafa selst 66.500 rafbílar frá Renault-Nissan en það er um 20 prósenta aukning miðað við sama tímabil í fyrra. Séu öll rafknúin farartæki samsteypunar sem lögleg eru í almennri umferð talin saman, þ.e.a.s. Nissan og Renault rafbílarnir og tveggja manna borgarfjórhjólið Renault Twizy, þá lætur nærri að tveir þriðju þeirra rafknúnu farartækja sem seljast í heiminum séu frá Renault-Nissan.
„Hin útblástursfríu rafmagnsfarartæki Renault og Nissan eru leiðandi á sínu sviði í heiminum. En það mikilvægasta er þó hversu eigendur þeirra um allan heim eru ánægðir með þau og eru ódeigir við að láta ánægju sína í ljósi,“ segir Carlos Ghosn stjórnarformaður og forstjóri Renault-Nissan. „Bæði ánægja viðskiptavinanna og vaxandi krafa um að samgöngutæki séu knúin endurnýjanlegri orku eru meginástæður stórvaxandi sölu rafbíla og mest eykst hún þar sem auðvelt er að nálgast hleðslustöðvar fyrir rafbíla,“ sagði Ghosn ennfremur.
Renault-Nissan ætlar næstu mánuði að birta myndbönd þar sem eigendur rafbíla í þremur heimsálfum lýsa reynslu sinni af rafmagnsfarartækjum sínum og hverju þau hafa breytt í lífi þeirra og fjölskyldna þeirra. Eitt slíkt myndband mun birtast í hverjum mánuði og hér má sjá það fyrsta. Í því lýsir bandaríski tölvufræðingurinn Chris Beers í Massachusetts reynslu sinni, en á hans bíl fer eingöngu raforka sem framleidd er með sólarorku. Það er þannig sjálf sólin sem knýr bíl hans sem er Nissan Leaf.