Renault-Nissan tekur stjórnina hjá AvtoVAZ

Renault-Nissan eignast 50,01% hlutafjár í AvtoVAZ, stærsta bílaframleiðslufyrirtæki Rússlands samkvæmt viljayfirlýsingu sem undirrituð var í morgun. AvtoVAZ varð upphaflega til á sjötta áratugi síðustu aldar í samvinnu Sovétríkjanna og Fiat á Ítalíu. Reist var ný bílaborg á bökkum Volgu með verksmiðjum og íbúðahverfum fyrir starfsmenn og fékk borgin hið ítalsk-rússneska nafn Togliatti. Fyrstu bílarnir voru Fiat 124 sem búið var að aðlaga að ýmsu leyti rússneskum aðstæðum eins og afleitum vegum og vetrarkuldum.

http://www.fib.is/myndir/Lada-priora.jpg
http://www.fib.is/myndir/Lada-niva.jpg
Efri myndin er af Lada Priora en sú neðri
af gömlum þekktum vini; Lada Niva sem
enn er framleiddur.

Viljayfirlýsingin í morgun er milli Renault-Nissan og rússneska ríkisfyrirtækisins Russian Technologies.  Hún er í stuttu máli sú að Renault-Nissan eignast 67 prósenta hlut í rússneska ríkisfyrirtækinu sem fyrir á 74,5 prósent í AvtoVAZ. Með kaupunum verður Renault-Nissan eigandi 50,01 prósents hlut í AvtoVAZ. Fyrir hlutinn greiðir Renault-Nissan 750 milljónir dollara. Í frétt frá Renault-Nissan segir að reikna megi með því að kaupin verði endanlega frágengin fyrir lok ársins.

Rekstur AvtoVAZ hefur verið erfiður undanfarin ár, ekki síst vegna þess að rússneskir bílakaupendur hafa í ört vaxandi mæli sniðgengið innlenda bíla og snúið sér að erlendum. Lítil endurnýjun hefur átt sér stað í bílaframleiðslunni hjá AvtoVaz. Gamla Ladan hefur lítið breyst eða þróast frá upphaflegu Lödunni og á fyrsta ársfjórðungi dróst salan á henni saman um 15% miðað við sama tímabil í fyrra og hefur nú verið tilkynnt um að framleiðslunni á henni verði hætt. Þá hefur það ekki bætt úr skák að AvtoVAZ neyddist í síðustu viku til að hefja innköllun á tæplega 100 þúsund nýjum Lödum vegna framleiðslugalla.