Renault og Caterham
Renault og breska sportbílasmiðjan Caterham sendu frá sér tilkynningu fyrr í dag að þeir hefðu sameinast um að byggja nýja sportbíla sem eiga að vera fisléttir en með bestu hugsanlegu aksturseiginleika slíkra bíla. Léttleiki, afturhjóladrif og minnst 200 hestöfl í hverjum bíl, sé sú lína sem unnið er eftir.
Renault Alpine árg. 1970. Hin myndin með þessari frétt er af Caterham Seven. |
Fyrsta gerðin sem verður ávöxtur samstarfsins hefur fengið nafnið Alpine. Hann mun verða byggður í tveimur útgáfum sem koma á markað 2015-2016. Alpine verður tveggja sæta sportvagn. Hann verður byggður að mestu úr áli og koltrefjaefnum. Sameiginleg tækni- og hönnunardeild Caterham og Renault hefur verið sett á stofn og verksmiðjan þar sem framleiðslan verður er í Dieppe, Frakklandsmegin við Ermarsundið.
Carlos Ghosn forstjóri Renault-Nissan segir í fréttatilkynningu að þetta séu gleðilegar fyrirætlanir því að hjá Renault hafi menn lengi dreymt um að skapa verðugan arftaka hins sigursæla sport- og keppnisbíls, Renault Alpine frá sjöunda áratuginum.