Renault Twizy
Borgarfarartækið Renault Twizy er til sýnis á bílasýningunni í Genf sem nú stendur og vekur þar umtalsverða athygli sýningargesta. Twizy er ekki lengur á hugmyndarstigi heldur er fjöldaframleiðsla í Renault verksmiðjunni í Valladolid á Spáni að byrja og markaðsherferð er hafin. Fræg frönsk popphjón hafa verið ráðin til að vera einskonar sendiherrar og andlit markaðsherferðarinnar.
En Renault Twizy er hreint ekki galið farartæki. Þeir blaðamenn sem reynsluekið hafa frumgerðinni láta vel af. Twizy sé mjög vænlegt farartæki til nota innan borga og þéttbýlis, snöggt í viðbrögðum, skemmtilegt, öruggt og gott í akstri, fylgir ágætlega umferðarhraðanum (kemst á 80 km hraða), og kemst 80-100 km á hverri hleðslu og allstaðar er hægt að finna stæði vegna þess hve farartækið er lítið um sig.
Twizy er um margt ekki ósvipaður örbílnum BMW - Messerschmidt frá því á árunum rétt eftir síðara stríð. Bæði BMW og Twizy eru tveggja manna og er farþegasætið fyrir aftan ökumannssætið. En í stað litlu eins strokks tvígengisvélarinnar sem var í BMW-Messerschmidt er Twizy rafknúið og líþíumgeymarnir eru undir ökumannssætinu. Tómir hlaðast þeir upp á þremur og hálfum tíma frá venjulegri 10 ampera 230 volta heimilisinnstungu. 80-100 kílómetra drægið dugar lang flestum til að sinna daglegum erindum sínum og skreppitúrum, þar sem lang stærsti hluti alls daglegs þéttbýlisaksturs á einkabílum nær vart 50 kílómetrum – líka á Íslandi. Í þessum akstri er ökumenn langoftast einir í bílum sínum eða með einn farþega.
Farartæki eins og Twizy gæti fyllilega dugað velflestum þeim sem nota bíla sína mest til aksturs til og frá vinnu og til að skjótast á milli borgarhluta. Hér á höfuðborgarsvæðinu og á öðrum stærstu þéttbýlisstöðum landsins dygði hann t.d. fyllilega enda er aðgengi að rafmagnsinnstungu óvíða betra en hérlendis, þótt augljóslega þyrfti að gera betur, ef rafmagnsfarartækjum eins og Twizy og rafbílum almennt tæki að fjölga.
Víst er að mjög miklar fjárhæðir myndu sparast hjá fjölskyldu sem kæmi sér upp farartæki eins og Twizy til nota í þéttbýlisskjöktinu í stað venjulegs fólksbíls svo ekki sé talað um þá sem fara allra sinna erinda jeppum af stærstu gerð.
Eldsneytiseyðsla bíla með venjulegar dísil- og bensínvélar í innanbæjarskjökti er langtum meiri en uppgefin eyðsla í blönduðum akstri. Bílvélar brenna allt að tvöföldu uppgefnu magni eldsneytis pr. ekinn kílómetra á fyrstu kílómetrunum eftir kaldræsingu og lang flestir innanbæjartúrarnir eru einungis örfáir kílómetrar (5-25). Svo er bílnum lagt og er aftur orðinn kaldur næst þegar gripið er til hans. Eins og hitafarið hefur verið á landinu í vetur hafa margir sem fylgjast með eyðslu bíla sinna hrokkið illilega við þegar þeir sáu hversu hrikalegar upphæðir fara í að kaupa rándýrt eldsneytið. Ekki allt of dýrt rafmagnsfarartæki sem fullnægt gæti þörfum fjölskyldunnar fyrir þéttbýlissnattið myndi einfaldlega spara verulegar fjárhæðir.
Og þá er komið að spurningunni, hvað kostar Renault Twizy? Samkvæmt upplýsingum frá Renault yrði líklegt verð á Íslandi frá ca 1,2 til 1,6 millj. kr. eftir búnaði. Twizy er af hálfu framleiðanda hugsaður sem einkonar millistig milli skellinöðru og bíls og er því án hurða í staðalútgáfu. Hurðirnar eru þannig aukabúnaður en bráðnauðsynlegar hér í landi hinnar láréttu rigningar. Með hurðunum og ýmsum öðrum aukabúnaði eins og álfelgum o.fl. fer verðið upp í ca. 1,6 millj. kr.
Rafgeymarnir eru ekki hluti kaupverðsins heldur eru þeir leigðir með bílnum. Leiguverðið fer eftir bæði tímalengd leigunnar og hversu mikið er ekið og verður frá rúmlega 8 -12 þúsund kr. á mánuði.