Renault Twizy til Norðurlanda

Furðufarartækið Renault Twizy er þessa dagana að koma á almennan markað í Svíþjóð og Danmörku. Upphaflega stóð til að salan hæfist sl. vor en af því varð ekki þar sem gleymst hafði að uppfylla hinar norrænu kröfur um dagljós og setja í farartækið dagljósabúnað. Það var reyndar gert strax í fyrrasumar en innflytjendur vildu ekki demba farartækinu á markað undir haustið og frestuðu markaðssetningunni því um eitt ár.

Renault Twizy er knúið rafmagni og er einskonar blanda örbíls og mótorhjóls eða fjórhjóls. Það er tveggja manna og sérstaklega hugsað til að skjótast milli húsa og borgarhverfa. Twizy kemst á 90 km hraða og drægið er í kring um 100 kílómetrar.

Renault Twizy mun fást í tveimur meginútfærslum. Þær eru nánast eins að því undanteknu að önnur kemst einungis á 45 km hraða og er ætluð unglingum og fólki sem ekki hefur almenn ökuréttindi á bíl heldur bara svokallað skellinöðrupróf. Í þeirri útgáfu kostar Twizy í Svíþjóð ísl. kr. 1.160.000. Hin útgáfan sem kemst á 90 km hraða á klst. kostar hins vegar um 1,7 milljónir kr. Hún hefur nægt afl til að fylgja bílaumferðinni og er ætluð til nota í almennri umferð.

Í grunnútgáfu er Twizy opið farartæki og í því er engin miðstöð. Hægt er að fá keyptar hurðir en þær eru aukabúnaður og kosta rúmlega 980 þúsund ísl. kr. Ennfremur fást á þær hliðarrúður sem kosta rúmar 590 þúsund ísl. kr. til viðbótar.

Twizy er eins og aðrir rafbílar frá Renault ekki seldur með rafhlöðum, heldur þarf að greiða leigu fyrir þær og er rafmagnið innifalið í leigunni. Í Svíþjóð verða margs konar leigukjör í boði á rafhlöðunum. Reiknað er með að flestir semji um annarsvegar  eins árs leiguverð að meðtöldu rafmagni tæplega 90 þús. ísl. kr. Verðið miðast við 7.500 km akstur á ári og þriggja ára leigusamning. Hins vegar er búist við að margir taki árs leigusamning með 15 þúsund kílómetra akstri. Hann kostar tæplega 180 þús. ísl. kr.