Renault ypptir öxlum

Talsmenn Renault segja að gjaldþrot rafbílafyrirtækisins Better Place breyti í engu fyrirætlunum um þróun og framleiðslu rafbíla. Renault-Nissan er sá af stærstu bílaframleiðendum heimsins sem mest fé og hugvit hefur lagt í rannsóknir og þróun á rafbílum og var í samstarfi við Better Place frá árinu 2008 um framleiðslu á bílum með skiptanlegum rafhlöðupökkum.

http://www.fib.is/myndir/Renault-Fluence-ZE.jpg
Renault Fluence með skiptanlegum rafhlöðupakka.

Framkvæmdastjóri Renault í Asíu segir við Reuters fréttastofuna að Renault ætli sér mikinn hlut í rafbílum framtíðarinnar, ekki síst í Kína. Hlutur Better Place í rafbílaáætlunum Renault hafi numið innan við 1% og því skipti gjaldþrotið Renault nánast engu máli. Áætlanir Renault muni ekki breytast hætishót. Sú geymaskiptitæknin sem Renault hefði hannað og þróað fyrir Better Place hefði kostað svo lítið brot af þeim 5,2 milljörðum dollara sem fyrirtækið ætlaði að fjárfesta í rafbílum fram til ársins 2015 að það vart mældist.

En rafbíllinn er þegar á heildina er litið, alls ekki lengur á þeirri beinu braut sem hann sýndist vera fyrir sárafáum árum. Sú bjartsýni og almenna tiltrú á að rafbíllinn ætti framtíðina fyrir sér hefur mjög dofnað. Nú eru þrjú ár liðin síðan rafbíllinn Nissan Leaf kom í almenna sölu í Bandaríkjunum og Evrópu og er salan langt undir væntingum. Sömuleiðis hefur mun hægar gengið að koma upp neti hleðslustöðva en reiknað var með þá.

Samkvæmt nýrri rannsókn ADAC í Þýskalandi, systurfélags FÍB, hefur tiltrú almennings á framtíð rafbíla stórminnkað. Almenningur telur að rafbílatæknin sé enn það frumstæð að bílarnir eigi enn langt í land með að verða samkeppnishæfir við brunahreyfilsbíla.

Á hinn bóginn virðist trú stjórnmálastéttarinnar á rafmagnsbílinn ennþá sterk. Angela Merkel Þýskalandskanslari  ítrekaði á mánudag að hún stæði við þá fyrirætlan að fjölga rafbílum svo mjög að ein milljón þeirra verði í umferð í Þýskalandi um 2020.

Samvinna Better Place og Renault sem hófst 2008 fæddi af sér rafgeymaskiptakerfi sem að sögn virkar ágætlega. Einungis örfáar mínútur tekur að fjarlægja tóma rafgeyma úr bílunum og koma fullhlöðnum geymum fyrir í þeirra stað. Samkvæmt áætlunum áttu um 100 þúsund bílar samtals að vera núna í umferð í Danmörku og Ísrael. Kaupendur/leigjendur bílanna létu hins vegar á sér standa og svo fór að bílarnir eru einungis um 900 í Ísrael og tæplega 400 í Danmörku.