Rétt rúmur helmingur nýskráðra bíla á Íslandi í ár eru dísilbílar
Rífandi gangur er í sölu nýrra bíla í flestum Evrópuríkjum um þessar mundir og er Ísland þar engin undantekning. Frá áramótum til loka júlímánaðar sl. voru nýskráðir 15.055 nýir bílar á Íslandi. Það sem af er ágústmánuði hafa bæst við á þriðja hundrað bílar. Af þeim eru flestir af tegundinni Toyota eða 27, í öðru sætinu er Skoda (20 bílar), í því þriðja Kia (19 bílar).
Þegar skoðaðar eru nýskráningartölur Samgöngustofu sést að það sem af er þessu ári er rétt rúmur helmingur nýju bílanna á Íslandi dísilbílar eða um 50,2%. Tæp 42% eru bensínknúnir bílar. Tvinnbílar og tengiltvinnbílar eru rúm 4,3% og um 3,6% eru hreinir rafbílar eða knúðir öðrum orkugjöfum eins og metangasi.
Stöðugt fleiri velja umhverfismilda bíla og hlutur tvíorkubíla fer stækkandi greinilega á kostnað hreinna rafbíla. Í tölum Samgöngustofu má greina nokkur kaflaskipti hér á landi varðandi nýskráningar tvinn- og tengiltvinnbíla. Frá áramótum og út júní sl. var hlutur þeirra í nýskráningum frá mánuði til mánuðar 3,1-4,4% en í júlí og það sem af er ágúst stekkur það upp í 8%. Samdráttur verður að sama skapi í nýskráningum bensínbíla.
Þannig virðist sem sú þróun sé að hefjast hér sem þegar er hafin í Evrópu, ekki síst í Noregi og Svíþjóð þar sem tvinn- og tengiltvinnbílarnir vinna á. Í Svíþjóð seljast slíkir bílar meir en nokkru sinni áður. Nýskráningar á þeim hafa rúmlega tvöfaldast það sem af er þessu ári miðað við sama tímabil í fyrra og eru nú orðnar samtals 6.515. Aukningin hefur fyrst og fremst orðið á kostnað hreinna rafbíla.
Vinsælasti tengiltvinnbíllinn í Svíþjóð er Volkswagen Passat, næstur kemur Volvo XC90 og í þriðja sæti er Volvo V60 PHEV.