REVA rafbílar til Íslands

 

Íslenska félagið Northern Lights Energy hefur undirritað samning við indverska rafbílaframleiðandann REVA um að selja REVA rafbíla hér á landi og í Færeyjum og verða fyrstu 100 bílarnir afhentir á næsta ári að því er fram kemur í frétt Eyjunnar. Samningsaðilar hyggjast ennfremur kanna hugsanlega hagkvæmni þess að reisa samsetningarverksmiðju fyrir REVA bíla hér á landi. Sú verksmiðja myndi þá framleiða bíla fyrir Evrópumarkað.

REVA-bílarnir sem framvegis koma til landsins, koma úr nýrri verksmiðju sem hefur framleiðslugetu upp á 30.000 rafbíla á ári. Þar er framleidd nýjar gerðir bílanna sem nefnast NXF og NXG og er sá fyrrnefndi fjögurra sæta meðan eldri gerðin sem til er á Íslandi í fáeinum eintökum er tveggja sæta. Gamla gerðin er reyndar ekki skilgreind sem bíll, heldur sem fjórhjól eða eins og segir á heimasíðu REVA (-…. classified as a quadricycle (category L7e) under UK and European law).

Nýja gerðin NXF, sem myndin er af, er hins vegar skilgreind sem bíll. Hún hefur verið árekstrarprófuð að því er kemur fram á heimasíðu REVA. Loftpúðar eru við framsæti, krumpusvæði er framan á bílnum og styrkingar eru í hliðum gagnvart árekstri frá hlið.

Hámarkshraði nýja bílsins er 104 km á klst. og drægið er 160 km á hleðslunni. Hægt er að hlaða geymana á tvennan hátt: Annarsvegar úr venjulegum heimilistengli en þá er hleðslutími tómra geyma 6 klst. Með hleðslu úr hraðhleðslutengli tekur 15 mínútur að fá nægan straum til 45 km aksturs og eina og hálfa klst. að fullhlaða tóma geyma.

Northern Lights Energy er félag sem hyggst rafbílavæða Ísland með því að byggja upp og þróa rafdreifikerfi og þjónustu fyrir rafbíla. Í tilkynningu félagsins segir að markmiðið sé að byggja upp heildstætt kerfi rafhleðslupósta og hraðhleðslustöðva og gefa með því Íslendingum kost á að rafbílavæðast á hagkvæman og raunhæfan hátt. Jafnframt verði stuðlað að innflutningi á rafbílum sem sem mæti helstu þörfum einstaklinga og fyrirtækja. Stefnt sé að því að sem stærstur hluti bílaflota landsmanna verði knúinn áfram af raforku fyrir árslok 2012.

REVA er indverskt fyrirtæki en rafmagnsfarartæki þess hafa selst undanfarin ár í 26 löndum. REVA á nú í samstarfi við General Motors um rafbíl sem nefnist Chevrolet Spark. REVA mun framleiða í þennan bíl mótora og rafstýrikerfi. Chevrolet Spark kemur á almennan markað 2011.