Reykingabann og sektir við slíku í bifreiðum ekki í bígerð hér á landi
Reykingabann í bifreiðum og sektir við slíku hefur nú þegar tekið gildi í mörgum löndum. Fleiri þjóðir munu á næstunni fylgja í kjölfarið. Í Frakklandi, Ítalíu, Austurríki og í nokkrum öðrum löndum hefur verið lagt á bann við reykingum í bílum. Í sumum tilfellum er refsað fyrir brot með háum sektum. Markmiðið í grunninn er að vernda ólögráða börn sem eru farþegar í bílunum. Fjallað er um þetta mál í nýútkomnu FÍB-blaði.
Reykingar í bílum eru almennt ekki bannaðar í Þýskalandi en það gæti breyst á næstunni. Sums staðar á Norðurlöndunum, í Hollandi og Póllandi er rætt um að taka alfarið upp bann við reykingum í bílum. Slík umræða fer einnig fram utan Evrópu en til dæmis hefur bann við reykingum þegar tekið gildi í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna, í Kanada, Ástralíu og Suður-Afríku,.
Reykingabann á opinberum stöðum á Íslandi gekk í gildi árið 2007. Almenn umræða um lagabreytingar við slíku í bílum hér á landi hefur ekki komist á skrið enn sem komið er. Aldrei er að vita nema það gerist í kjölfar breytinga sem nú eiga sér stað víða um lönd.
Ekki eru lög hér á landi sem banna reykingar í bifreiðum og ekki er að vænta breytinga í þeim efnum. Arnar Jensson, verkefnastjóri tóbaksvarna hjá embætti landlæknis, sagði í viðtali við FÍB, að umrætt reykingabann í bifreiðum víða um lönd hefði ekki komið til tals innan embættisins eða löggjafans í landinu.
Öll viljum við tryggja börnum heilsusamlegt umhverfi
,,Við fylgjumst vel með þróuninni í þessum efnum annars staðar. Það væri ánægjulegt að sjá hve margar þjóðir hafa verið að setja reykingabann í bifreiðum. Ég get nefnt Finna sem settu þetta bann á fyrir all nokkrum árum síðan. Það eru sjálfsögð réttindi að ekki sé reykt í bifreiðum og um það eru flestir sammála. Öll viljum við tryggja börnum heilsusamlegt umhverfi, jafnt í bílum sem og annars staðar. Við hefðum vonast eftir að eftirfylgnin hefði verið meiri hér á landi um þetta mál en raunin hefur orðið,“ sagði Viðar Jensson. Tóbaksvarnarlögin hér á landi hafa ekki verið uppfærð í mörg ár.
Svo dæmi séu tekin þá hefur reykingarbann með sektum verið lögleitt á Englandi og Wales þar sem reykingar eru bannaðar í ökutækjum ef um borð eru farþegar yngri en 18 ára. Sektir vegna brota við þessum reglum geta numið allt að 50 pundum. Í Frakklandi er einnig bannað að reykja í bílum í viðurvist barna yngri en 18 ára. Brot gegn banninu falla í svokallaðan sektarflokk 4 og er refsingin 135 evrur.
Á Írlandi er ekki lengur leyfilegt að reykja í bíl ef einstaklingur undir 18 ára er í bílnum. Fyrir brot er refsað með sekt upp á 100 evrur eða meira. Í Skotlandi er ekki lengur leyfilegt að reykja í bílum ef fólk undir 18 ára er um borð. Reykingabannið gildir bæði fyrir ökumann og farþega, hvort sem gluggar eða sóllúga eru opin. Sá sem brýtur gegn þessu á yfir höfði sér 100 punda sekt. Rafsígarettur eru ekki bannaðar.
Á Ítalíu er óheimilt að reykja í bílnum ef óléttar konur eða börn eru í bílnum. Sektin í slíkum tilfellum er á bilinu 50 til 500 evrur en frá 25 til 250 evrur ef börn á aldrinum 12 til 17 ára eru farþegar.