Reyna að þvinga réttingaverkstæðin
FDM, systurfélag FÍB í Danmörku sakar þarlend tryggingafélög um að þvinga réttingaverkstæði til að kasta til höndum við viðgerðir á tjónuðum bílum, til að ná tjónakostnaðinum niður. Slíkt leiði til þess að óöruggari bílar komast í umferð.
Í frétt í Motor, félagsblaði FDM um málið, er nefnt dæmi um bíl sem ekið var á frá hlið. Við það skemmdist framendi bílsins og framhjólabúnaður. Nú á að gera við bílinn og réttingaverkstæðið þar sem bíllinn er á, metur viðgerðina til tiltekinnar upphæðar sem tryggingafélagið telur allt of háa. Það stendur fast á því að viðgerðin megi ekki kosta krónu meir en það sem það sjálft er tilbúið að borga og hótar að taka bílinn og flytja hann á annað verkstæði ella.
FDM segir að þetta sé velþekkt aðferð tryggingafélaganna sem mörg verkstæði þekki á eigin skinni. Félögin krefjist sífellt ódýrari viðgerða og allt eins þótt það leiði til verri viðgerða, bílarnir verði óöruggari eða falli jafnvel úr ábyrgð vegna þess að viðgerðin var ekki samkvæmt forskrift framleiðanda.
„Auðvitað á að gera við tjón eftir forskriftum og fyrirmælum framleiðanda svo bílarnir séu eins öruggir og verða má eftir sem áður. Því er alls ekki hægt að sætta sig við það að tryggingafélögin stjórni því hvernig gert er við tjónabíla til að þau sleppi sem ódýrast frá tjóninu,“ segir Jørgen Jørgensen tæknistjóri FDM. Þá segir hann að það sé mikilvægt fyrir bíleigendur að þeir geti valið þau verkstæði sem þeir treysti til að gera rétt og sómasamlega við bíla þeirra og að tryggingafélögin hafi það einnig að leiðarljósi.
Tímaritið Motor segir að málum af þessu tagi fari fjölgandi. Nútímabílar séu mun þrauthugsaðri og flóknari en áður var og tjónaviðgerðir af þeim sökum orðnar dýrari. En ágreiningur um viðgerðakostnað megi aldrei leiða til verri vinnubragða við viðgerðir að mati FDM.
„Síðustu árin hefur verið lögð gríðarleg vinna í það að gera bíla eins örugga og kostur er í árekstrum og slysum. Ef ekki er gert við tjónabíla samkvæmt forskriftum og fyrirmælum framleiðenda þá er allt unnið fyrir gýg. Auðvitað er erfitt fyrir neytendur að skera úr um það hvort rétt hafi verið gert við bíla þeirra. Þess vegna mælir FDM með því að fólk komi skemmdum bílum sínum í hendur verkstæða sem það treystir og það standi fast á rétti sínum gagnvart tryggingafélögunum reynist það nauðsynlegt,“ segir Jørgen Jørgensen.
Eftir að greinin um þessi mál birtist í Motor hafa samtök löggiltra réttingaverkstæða í Danmörku SKAD krafist þess að yfirvöld og löggjafinn grípi inn í málið. Talsmaður samtakanna, Thomas Krebs, staðfestir að öllu leyti sannleiksgildi fréttarinnar í Motor og segir að forsvarsmenn verkstæða þori varla að æmta né skræmta af ótta við að tryggingafélögin rífi verkefnin frá þeim og í versta falli útiloki þá frá öllu samstarfi. Þetta sé stórháskalegt því að illa viðgerðir tjónabílar geti verið miklu veikari fyrir í næsta hugsanlega árekstri og það geti auðveldlega kostað þá sem í bílnum eru örkuml og jafnvel líf. Með því að taka þetta mál upp af skörungsskap hafi FDM unnið mjög þarft verk.