Richard Hammond á batavegi
Sjónvarpsstjarnan Richard Hammond er á batavegi eftir alvarlegt slys á sérútbúnum ,,þotubíl”. Hammond sem er 36 ára og gengur undir gælunafninu Hamsturinn var meðvitundarlaus í 30 klukkustundir eftir slysið. Hann var að gera tilraun til að slá breskt hraðamet á ökutæki og var kominn á um 450 km hraða þegar dekk sprakk og bíllin fór margar veltur. Óhappið varð við upptökur fyrir BBC bílaþáttinn Top Gear sem nýtur mikilla vinsælda enda sýndur um víða veröld m.a. hér á landi hjá Skjá einum.
Richard Hammond er kominn af gjörgæslu yfir á almenna deild en þjáist af miklum svima. Hann fékk alvarlegt höfuðhögg í slysinu en slapp óbrotinn. Samkvæmt fréttum er ákveðin óvissa varðandi framhaldið og frekari bata. Ljóst er að það er nánast kraftaverki líkast að Hammond vaknaði til meðvitundar aðeins rúmum sólarhring eftir þetta alvarlega slys.
Jeremy Clarkson starfsfélagi Hammond og oddviti Top Gear þáttanna sagði í gær að hann hefði talað við Hammond á sjúkrahúsinu. Clarkson sagðist hafa sagt honum frá bílslysinu. ,,Ók ég einsog vitleysingur?” spurði Hammond þá.