Richard Hammond úr Top Gear alvarlega slasaður

Hinn vinsæli breski sjónvarpsmaður Richard Hammond liggur þungt haldinn á sjúkrahúsi í Leeds eftir að hafa slasast alvarlega í bílveltu við upptökur fyrir Top Gear.  Richard Hammond hefur oft komið til Íslands m.a. á liðnu vori þegar hann vann að upptökum fyrir Top Gear við Jökulsárlón í Öræfum og við Kleifarvatn.  Ólafur Kr. Guðmundsson varaformaður FÍB hefur unnið náið með Hammond og félögum hans hjá BBC við tökur á efni á liðnum árum.  Ólafur fékk þær fréttir í morgun að Hammond hefði verið flogið til Leeds á sérhæfða heila- og taugadeild.  Ólafur sagði fréttavef FÍB að hann væri óbrotinn en  haldið sofandi vegna höfuðáverka.

 Vampire

Óhappið átti sér stað þegar Richard Hammond reyndi við breskt hraðamet bíla á flugbraut utan við York.  Hann ók sérbúnum bíl af gerðinni Vampire sem er 997 kg á þyngd, níu metra langur og knúinn áfram með Rolls Royce Orpheus þotuhreyfli.  Hraðametið á Collin Fallows, 483 km/klst á þessum sama Vampire bíl. Samkvæmt fréttum var Hammond nálægt því að slá metið þegar bíllinn fór fjölmargar veltur og staðnæmdist utan við brautina. 

 Richard Hammond ásamt Ólafi Kr. Guðmundssyni