Rífandi gangur

Stjórnendur bæði Fiat og Volkswagen samsteypanna geta brosað breitt nú þegar uppgjör fyrsta ársfjórðungs liggur fyrir. Volkswagen heldur áfram að stækka og selja stöðugt fleiri bíla og sömu sögu er að segja af Chrysler sem var við dauðans dyr fyrir örfáum árum en er aftur kominn á fljúgandi siglingu í N. Ameríku.

Það er því fyrst og fremst vegna velgengni Chryslers að Fiat/Chrysler samsteypan skilar mjög góðum hagnaði á fyrsta fjórðungi ársins. Rekstrartekjur Chryslers fyrstu þrjá

http://www.fib.is/myndir/Volkswagen-up-9.jpg
Nýjasti Volkswagen bíllinn VW Up hefur
fengið mjög góðar viðtökur og eru víða í
Evrópu langir biðlistar eftir honum.
Bíllinn á efri myndinni er Chrysler 300
en hann er mikill sölubíll í N. Ameríku.

mánuði ársins eru meiri en voru allt árið 2011. Það segir sína sögu um þann uppgang sem er á bílamarkaði N. Ameríku um þessar mundir og þann bata sem orðið hefur í rekstri Chryslers við sameininguna við Fiat. Ekki er þó alveg sömu sögu að segja af Fiat-hluta samsteypunnar. Þar dróst veltan saman um tæp sex prósent miðað við sama tíma í fyrra og bílaframleiðslan dróst saman um 22 prósent meðan bílasala í Evrópu dróst saman um 7,7 prósent.

Sem dæmi um velgengni Chryslers nú er að í fyrsta sinn í bílasögunni er Chrysler stærri en bæði General Motors og Ford í Kanada með rúmlega 15 prósenta markaðshlutdeild. Í Bandaríkjunum jókst markaðshlutdeild Chryslers úr 9,2 prósentum í 11,2 prósent.

Hjá Volkswagen samsteypunni er staðan þannig að veltan jókst um hvorki meira né minna en 26 prósent á fyrsta fjórðungi ársins og bílasalan jókst um 11 prósent. Í beinhörðum tölum er dæmið þannig að alls hafa selst 2,2 milljónir bíla frá VW samsteypunni það sem af er ári (VW, Audi, Skoda, Seat ofl.) og veltan varð 47,3 milljarðar evra og rekstrartekjur jukust um 10 prósent og urðu 3,2 milljarðar evra. Allt er þetta langt umfram það sem efnahagsvitringar höfðu spáð. Martin Winterkorn forstjóri VW samsteypunnar getur því vel við unað en hann lýsti í byrjun ársins yfir að hann hyggðist selja fleiri bíla á þessu ári en þær 8,3 milljónir bíla sem seldust í fyrra og skila ekki verri hagnaði en þá. Vart verður því annað sagt en árið hafi byrjað vel hjá honum.

Eins og við mátti búast brást hlutabréfamarkaðurinn við árshlutauppgjörum bílaframleiðendanna. Hlutabréf í Volkswagen hækkuðu um 7,8 prósent en hlutabréf í Fiat lækkuðu 5,1 prósent.