Ríkisfjármögnun Vaðlaheiðarganga
20. og síðasta mál á dagskrá fundar alþingis í dag er önnur umræða lagafrumvarps fjármálaráðherra um heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði. Fjárlaganefnd afgreiddi málið frá sér í fyrradag og mælti meirihluti nefndarmanna með því að frumvarpið yrði samþykkt óbreytt. Sjá nefndarálitið hér.
Undir nefndarálitið rituðu þrír þingmenn þess kjördæmis sem fyrirhuguð göng verða í. Þeir eru Björn Valur Gíslason, Höskuldur Þórhallsson og Sigmundur Ernir Rúnarsson. Auk þeirra undirrituðu meirihlutaálitið Sigríður Ingibjörg Ingadóttir úr Reykjavík S, Árni Þór Sigurðsson úr Reykjavík N. og Björgvin G. Sigurðsson úr Suðurkjördæmi. Sigríður Ingibjörg, sem er formaður nefndarinnar, undirritaði meirihlutaálitið með fyrirvara.
Allur aðdragandi þessa Vaðlaheiðarmáls hefur verið með miklum ævintýra- og bjartsýnisbrag. Framkvæmdin er tekin út fyrir sviga samgönguáætlunar á þeirri forsendu að framkvæmdin muni standa undir sér að fullu með veggjöldum. Talsmenn ganganna hafa haft uppi Excel-flugeldasýningar á hinni meintu hagkvæmni og sjálfbærni og lagt fram pöntuð álit til stuðnings áætlunum sínum. FÍB sýndi fyrst fram á að þessar áætlanir standast ekki. Sama hefur Pálmi Kristinsson verkfræðingur gert og nú síðast ríkisábyrgðarsjóður sem telur að væntanleg ríkisábyrgð muni falla á ríkið að mestu eða öllu leyti. Það þýðir að öðrum og meira aðkallandi framkvæmdum í þjóðvegakerfinu verður að fresta um ófyrirséðan tíma. Sama kakan verður nefnilega seint bæði etin og geymd. Sjá ítarlegri frétt hér.
Það hindrar þó ekki fjármálaráðherra og ríkisstjórn í því að ætla að halda málinu til streitu og skuldsetja ríkissjóð um 8,7 milljarða. Á þessari stundu virðist tvísýnt hvort alþingi samþykki þessa lántöku- og fjármögnunarheimild því þung undiralda er gegn þeim glannaskap í ríkisfjármálum sem þetta mál er. Líklegra er þó að frumvarpið verði samþykkt því að ósennilegt er að margir þingmenn stjórnarflokkana gangi gegn því á ögurstundu og setji þannig ríkisstjórnina á höggstokkinn.