Ríkislögreglustjóri kaupir sérútbúna Volvo lögreglubíla
Samkvæmt fréttatilkynningu frá Brimborg hafa Ríkiskaup, fyrir hönd ríkislögreglustjóra, gert samning við Brimborg um kaup á sex Volvo V70 D4 Drive-E lögreglubílum í kjölfar útboðs. Volvo lögreglubílarnir uppfylltu allar gæðakröfur útboðs Ríkiskaupa. Bílarnir eru sérútbúnir lögreglubílar frá verksmiðju Volvo í Gautaborg í Svíþjóð. Bílarnir verða í notkun hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og lögreglunni á Suðurnesjum.
Lögreglubílarnir eru sérútbúnir að því leytinu að undirvagninn og hemlakerfið er sérstaklega styrkt til að þola mikið álag. Slit-skynjarar eru á bremsubúnaði og álfelgurnar eru hannaðar með það að markmiði að auka loftflæðið að bremsunum til að auka kælingu. Rafkerfi Volvo lögreglubílana er öflugra og raflögnin gerir ráð fyrir ýmsum aukabúnaði sem nauðsynlegur er í lögreglubílum. Af sömu ástæðu er öflugri rafgeymir í bílunum. Sæti Volvo lögreglubílana eru að auki hönnuð til að þola meira álag.
Þessir Volvo bílar eru búnir kraftmikilli 181 hestafla dísilvél með 8 þrepa sjálfskiptingu sem skilar 400 Nm í togkraft. Lítil mengun og sparneytni einkennir þá en CO2 losun er aðeins 119 g/km og eyðsla í blönduðum akstri einungis 4,5 l/100 km.
„Þetta er í fyrsta skiptið sem lögreglan á Íslandi fær afhenta sérútbúna lögreglubíla beint frá bílaverksmiðju. Umbreytingarferlið hjá Volvo fyrir lögreglubíla tekur um 45 klukkustundir sem tryggir að þeir þola betur gríðarlegt álag m.a. í forgangsakstri.“ segir Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar.
Volvo afhendir um 500-600 lögreglubíla á hverju ári til lögregluembætta víða um heim. Flestir eru seldir í Svíþjóð þar sem Volvo hefur um 90% markaðshlutdeild lögreglubíla. Einnig eru sérútbúnir Volvo lögreglubílar m.a. í notkun í Bretlandi, Belgíu, Hollandi og Sviss. Volvo stefnir að því að tvöfalda magn seldra lögreglubíla á komandi árum.