Risa-pallbílarnir úr tísku í Ameríku

The image “http://www.fib.is/myndir/FordF250.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Markaðshlutdeild stóru bílafyrirtækjanna GM og Ford í Bandaríkjunum hélt áfram að rýrna í nýliðnum maímánuði. Sala nýrra bíla hjá Ford dróst saman um 3,9% í apríl miðað við sama mánuð í fyrra og hjá GM dróst hún saman um 4,4%. Af bráðabirgðatölum um söluna í maímánuði má ráða að ástandið versnaði enn. Í frétt frá Ford segir að salan í maímánuði hafi verið nálægt því sem gert hafði verið ráð fyrir en samdráttur hafi vissulega orðið í maí.
Samdrátturinn er að miklu leyti vegna þess að eftirspurn eftir stórum pallbílum hefur hrunið. Markaðsfræðingar benda á mjög hátt bensínverð sem veigamikla ástæðu þessa, en það sé þó ekki eina ástæðan. Ekki síður veigamikil ástæða sé að risastóru pallbílarnir séu einfaldlega dottnir úr tísku, fólk nenni hreinlega ekki lengur að skrölta um á þeim og sækist eftir liðlegri og liprari bílum.
Auto Motor & Sport hefur eftir Robert Barry bílamarkaðsfræðingi hjá Goldman Sachs að GM muni draga úr framleiðslu um 10% á seinni helmingi ársins og Ford um tæp sjö prósent.