Risabrú í Noregi
Margir Íslendingar sem sigldu með Smyril Line til Bergen, meðan sú merka Hansaborg var enn á áætlun útgerðarinnar, muna vafalaust hversu ökuleiðin milli Bergen og Osló yfir Harðangur var seinfarin. Þeir muna sjálfsagt líka eftir því að taka þurfti ferju yfir hinn langa og mikla Harðangursfjörð. Nú hefur þessi ferja verið aflögð því að komin er mikil brú yfir fjörðinn. Bergen og Osló eru loks komnar í samfellt vegasamband.
Hin nýja Harðangursbrú er mikið mannvirki og glæsilegt. Hún er hengibrú og eru turnarnir við hvorn brúarendann 200 metra háir. Brúin er alls 1.380 metra löng en brúargólfið milli turnanna er 1.310 metrar, þannig að spennivídd brúarinnar er meiri en Golden Gate brúarinnar í San Fransisco.
Harðangursbrúin var nýlega tekin í notkun og um leið hættu ferjusiglingar milli Bruravik og Brimnes. Brúin kostaði tæplega 50 milljarða. Það var danska verktakafyrirtækið MT Højgaard sem byggði hana að mestu. Þeir sem aka um brúna verða að greiða vegtoll sem er um þrjú þúsund ísl. kr fyrir fólksbíl hvort heldur sem aftan í honum hangir hjólhýsi eða ekki.