Róleg verslunarmannahelgi
05.08.2007
Hluti af bílaflota FÍB Aðstoðar um verslunarmannahelgina 2007.
Verslunarmannahelgin hefur verið fremur róleg hjá FÍB Aðstoð fram að þessu. Á ellefta tímanum í morgun, sunnudag, var umferð lítil í nágrenni Reykjavíkur. Sömu sögu var að segja annarsstaðar á landinu. Trúlega var veður einna skást á Suðvesturhorni landsins – sólskin en allhvasst. Á Akureyri og austur í Þingeyjarsýslu var veður ekkert sérstaklega ferðamannavænt, aðeins 7 stiga hiti og rigning.
Það er ljóst, eins og Ómar Ragnarsson bendir á á bloggsíðu sinni nú í morgun, að verslunarmannahelgin er gjörbreytt frá því sem var og hún heldur áfram að breytast. Fáar stórhátíðir eru haldnar nú heldur ýmsar smærri og sérhæfðari en áður tíðkuðust. Hátíðirnar eru ekki lengur sérstaklega bundnar við verslunarmannahelgina heldur dreifast þær á fleiri helgar.
Með sumarhúsa-, hjólhýsa og húsbílavæðingunni undanfarin 10-15 ár sem enn er lítið lát á, hefur bílaumferð um helgar aukist gríðarmikið. Umferðin drefist nú á flestar helgar sumarsins og raunar ársins alls. Verslunarmannahelgin er ekki lengur sú mikla ferðahelgi sem hún var og svo virðist sem sífellt fleiri telji það ekki lengur heilaga þjóðlega skyldu sína að brenna út á þjóðvegina af því að það er verslunarmannahelgi.
Þetta sýndi sig ágætlega í upphafi hennar nú. Umferð út af höfuðborgarsvæðinu var einfaldlega ekkert meiri en um ósköp venjulega helgi og jafnvel minni. Ómar Ragnarsson skýrir þessar breytingar ágætlega í grein sinni sem lesa má hér.