Rolls-Royce innkallar 77 bíla

http://www.fib.is/myndir/Rolls_Royce_Phantom.jpg
Rolls Royce Phantom árgerð 2006.


Það er víst ekki oft að Rolls Royce hefur þurft að innkalla bíla sína til viðgerðar vegna galla en nú nú hefur það gerst alveg nýlega.

Hin gamalkunna bílasmiðja sem byggir bíla fyrir stórhöfðingja og konunga hefur greinilega misst frá sér gallaða bíla af gerðinni Rolls Royce Phantom sem nú hafa verið innkallaðir. Bílarnir eru samtals 77 og þarf að skipta um gúmmífóðringar í demparafestingum að aftan.

Bílarnir voru allir byggðir – handsmíðaðir - í smiðju Rolls Royce í Englandi á fyrri hluta þessa árs. 32 af þeim voru seldir til Bandaríkjanna, einn var seldur til Þýskalands en hinir eru dreifðir um Bretland og ýmis fleiri lönd.

Þegar bílar eru innkallaðir til viðgerðar vegna framleiðslugalla er það yfirleitt gert með því að haft er samband við skráða eigendur samkvæmt opinberum bifreiðaskrám í þeim löndum sem innköllunin nær til.

Samkvæmt frétt Auto Motor & Sport reyndist ekki nauðsynlegt að leita á náðir þýsku bifreiðaskrárinnar  heldur hafði umboðsaðili Rolls Royce í Þýskalandi sambandi við þennan eina eiganda Rolls Royce Phantom af árgerð 2006 sem þar fyrirfinnst og er þegar búið að skipta út gölluðu gúmmífóðringunum í bílnum hans.