Rover-vörumerkið selt til Kína
BMW hefur selt vörumerkið Rover og öll afnot af því. Kaupandinn er kínverska ríkisfyrirtækisið Shanghai Automotive Industry (SAIC) sem fyrir nokkrum mánuðum eignaðist þrotabú MG-Rover. Söluverðið er um 1,4 milljarðar ísl. kr.
Rover-nafnið olli nokkrum ruglingi þegar MG-Rover fór á hausinn á síðasta ári því að margir héldu að þar með yrði hætt að framleiða bæði Land Rover og Range Rover. Svo var þó alls ekki því að löngu fyrr var búið að aðskilja framleiðsluna á Rover fólksbílum og Land Rover og Range Rover jeppunum. BMW átti hins vegar öll þessi vörumerki sem eitt sinn þóttu það breskasta sem breskt var, en framseldi réttinn til að nota Rover vörumerkið til fyrrverandi eigenda MG-Rover- þeirra sömu og fóru í þrot með reksturinn í fyrra.
Með kaupunum á Rover vörumerkinu er það tryggt að SAIC getur kallað þá fólksbíla sína Rover sem ætlunin er að komi á Asíu- og hugsanlega Evrópumarkað á næsta ári. Það er að segja ef Ford ekki leggst gegn því, en Ford á nefnilega forkaupsrétt að Rover-vörumerkinu.