Rúmlega helmingur myndi aldrei eða sjaldan nota Borgarlínu
Í nýrri viðhorfskönnun MMR, Markaðs og miðlarannsóknir ehf, meðal íbúa höfuðborgarsvæðisins um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu sem unnin var fyrir áhugahópinn Samgöngur fyrir alla (ÁS) kemur fram að 51% svarenda taldi að umbætur á stofnbrautakerfinu væru líklegri til að draga úr umferðartöfum. Hins vegar töldu 33% að Borgarlína væri líklegri til þess.
Könnun MMR fór fram dagana 7. til 12. maí sl. Þátttakendur í könnuninni voru íbúar höfuðborgarsvæðisins 18 ára og eldri og voru þeir valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR (spurningavagn). Úrtakið var vegið eftir aldri, kyni, búsetu og menntun. Rúmlega 600 íbúar höfuðborgarsvæðisins svöruðu könnuninni.
Í könnuninni eru yfir 40 bakgrunnsbreytur þannig að greina má svör við einstökum spurningum t.d. eftir, aldri, kyni, búsetu, menntun, starfsgreinum, tekjum og bílaeign. Í könnuninni var spurt 14 spurninga. M.a. var spurt um ferðamáta og ferðavenjur og um álit svarenda á umferðarástandi og umferðartöfum á höfuðborgarsvæðinu. Þá var leitað eftir áliti þátttakenda á Borgarlínu og einstökum þáttum tengdum henni.
Þá töldu 44% svarenda (76% þeirra sem tóku afstöðu) að til væru hagkvæmari leiðir (líkt og tillögur ÁS) til að ná jafn góðum eða betri árangri til að bæta almenningssamgöngur en fram komnar tillögur um Borgarlínu. 66% svarenda voru andvíg því að fækka akreinum úr fjórum í tvær á Suðurlandsbraut vegna borgarlínu. Aðeins 18% voru hlynnt þeim breytingum og 16% tóku ekki afstöðu.
Rúmlega helmingur svarenda taldi að hann myndi aldrei eða sjaldan nota Borgarlínu og aðeins 30% töldu að þau myndu nota Borgarlínuna vikulega eða oftar. 19% voru óviss. Þá sögðust tæp 60% andvíg lækkun hámarkshraða á borgargötum en fjórðungur hlynntur. Meirihluti svarenda var einnig andvígur fjölgun hraðahindrana til að draga úr hraða á götum.