Rússajeppaverksmiðjan framleiðir Chevrolet
Gorkí-bílaverksmiðjurnar miklu, eða GAZ í Nizjnij Novgorod sem lengstum framleiddu Volgur og Rússajeppa hafa gert samning við GM um að setja saman árlega næstu árin 30 þúsund Chevrolet Aveo bíla. Hinn sænski forstjóri GAZ, Bo Andersson, er einnig í viðræðum við Volkswagen um að framleiða Volkswagen og Skoda bíla fyrir hinn ört vaxandi rússneska bílamarkað. Þessi framleiðslusamningur kemur nokkuð á óvart því að GM hefur áður gert svipaðan framleiðslusamning við AvtoVAZ (sem byggði frambyggðu Rússajeppana) og á auk þess glænýja eigin bílaverksmiðju í St. Pétursborg.
Bo Andersson var á árum áður millistjórnandi hjá Saab. Þaðan fór hann til General Motors og varð þar fljótlega innkaupastjóri. Sumum þótti sem hann hefði eitthvað bilast þegar hann í miðri bílakreppunni 2009 söðlaði um og yfirgaf GM til að taka við forstjórastöðu GAZ í Nizjnij Novgorod, 350 km frá Moskvu. Bullandi tap var á þessari fyrrum ríkisverksmiðju en Andersson hefur tekist að snúa dæminu við og frá 2010 hefur GAZ verið rekið réttu megin við núllið. Mesti sölubíllinn hjá GAZ (sem myndin er af) er bíll sem byggður er bæði sem sendibíll og léttur vörubíll sem heita Gazelle. Meira að segja eru nokkrir slíkir á skrá hér á landi. En GAZ hefur líka nýlega gert samskonar samning við Daimler og við GM, um að setja saman 25 þúsund Mercedes Sprinter sendibíla árlega.
Lítil hætta er talin á að GAZ geti ekki annað framleiðslu á þremur tegundum bíla því að verksmiðjan er risastór. Gólfpláss í húsakynnum verksmiðjunnar er meira en þrjár milljónir fermetra en húsin eru byggð á ýmsum tímabilum hins sovéska þjóðskipulags. Fyrstu verksmiðjuhúsin voru reist up úr 1930 og kom Henry Ford stofnandi Ford Motor Co. við þá sögu. Hann færði meira að segja Jósef Stalín fyrstu mótin og framleiðslutækin til bílaframleiðslunnar og er gamli Rússajeppinn upphaflega þannig til kominn. Henry Ford var talsvert sérstakur náungi og dáði umfram aðra, duglega, harðsnúna og harðsvíraða menn sem hann taldi líkjast sér sjálfum. Þannig fann hann til andlegs skyldleika með náunga eins og Jósef Stalín.
Allt viðhald á húsakynnum og tækjum þessarar risaverksmiðju var lengstum í skötulíki þótt ýmislegt hafi verið endurbætt og lagað. Einungis hluti bygginga og tækja hefur verið í notkun síðan sovétskipulagið hrundi og hefur Bo Andersson sagt frá því að hann hafi hreinlega fundið í einni byggingunni yfir þúsund fræsara sem ætlaðir eru m.a. til að bora út vélarblokkir. Hann segir að nauðsynlegt sé að gera enn fleiri framleiðslusamninga til að nýta betur húsa- og tækjakost sem enn er í sæmilegu lagi. Og sumt sé vissulega í lagi því að hann hafi á verksmiðjusvæðinu séð þær allra bestu og fullkomnustu smurgryfjur sem hann hafi nokkursstaðar augum litið.