Rússland er ört vaxandi bílaland

http://www.fib.is/myndir/UAZ-Simbir.jpg http://www.fib.is/myndir/Russalexus.jpg
UAZ Simbir t.v. er nýr rússneskur jeppi, en Rússar vilja frekar Lexus.


Rússar keyptu á síðasta ári alls 1,64 milljónir nýrra fólks- og sendiferðabíla. Erlendar bílategundir bættu markaðshlutdeild sína í landinu um 49% og alls seldust 563.400 erlendir bílar og reiknað er með að þeir nái 70% markaðshlutdeild árið 2010 og fjöldi erlendra seldra bíla verði þá meiri en 1,5 milljón bílar. Efnahagsspár gera ráð fyrir 5,5% auknum kaupmætti í Rússlandi á þessu ári en hann óx um 6,4% á síðasta ári. Til samanburðar þá er spáð 1,9% kaupmáttaraukningu í Þýskalandi á þessu ári.

Þetta og sú staðreynd að sífellt fleiri bílakaupendur í Rússlandi velja erlendar bílategundir, ekki síst japanskar, framyfir rússneskar eru meginástæður ört vaxandi áhuga stóru bílaframleiðendanna á rússneska bílamarkaðinum segir rússneskur viðmælandi Automotive News Europe.

Þessi aukni áhugi lýsir sér ekki síst í ásókn bílaframleiðandanna að reisa bílaverksmiðjur í Rússlandi og ná þannig traustari fótfestu á markaðinum. Einmitt það hafa asísku bílaframleiðendurnir gert í Bandaríkjunum og síðustu árin í Evrópu, til að styrkja stöðu sína á markaði. Dæmi um það eru t.d. Toyota, Honda, Suzuki og Hyundai/Kia.