Rússnesk bylting?
Lada Revolution 3.
Nú þegar efnahagskreppa er skollin á af fullum þunga, bankar fallnir og neyðarlög um stjórn ríkisfjármála í gildi hlýtur hugur margra sem komnir eru um og yfir miðjan aldur að reika til þeirra tíma þegar Moskvitsar, Rússajeppar og Blöðruskódar voru algengustu farartæki almennings – keyptir til landsins í vöruskiptum fyrir síld og ullarfatnað frá Gefjun-Iðunn á Akureyri og Álafossi og svart bílalakk frá málningarverksmiðjunni Hörpu.
Miðað við ástandið í fjármálum og bankamálum landsins og viðræður við Rússa um stórt gjaldeyrislán er svo sem hægt að ímynda sér að viðskipti milli Rússlands og Íslands eflist á ný og rússneskir bílar verði aftur algengustu bílar Íslensks almennings. Gorkíj bílaverksmiðjan þar sem framleiddir voru Rússajeppar og Volgur er enn við lýði og sá ágæti vinnuhestur - Lada - er enn framleidd.
Flestar megingerðir Lada bíla eru ennþá framleiddir lítið breyttir auk þess sem nýjar gerðir hafa af og til verið að skjóta upp kollinum. Bílaframleiðslan hjá Lada hefur verið að aukast jafnt og þétt eftir mikið samdráttarskeið og vantar lítið upp á að hún sé að ná fyrri hæðum sem var um 800 þúsund einingar á ári. Rússarnir hafa verið ötulir að sýna framleiðsluvörur sínar á stóru evrópsku bílasýningunum undanfarin ár og gerðu ekki neina undantekningu á Parísarsýningunni sem nú stendur en lýkur um næstu helgi. Og þótt Lödurnar og Lödu-jepplingarnir séu alltaf nánast eins í útliti hafa innviðir þeirra verið að breytast jafnt og þétt og samsetning og frágangur augljóslega verið að batna verulega.
Á Parísarsýningunni sýnir Lada auk „gömlu“ bílanna sinna frumgerð nýs sportbíls, Lada Revolution 3. Hann er ekki síst hugsaður sem keppnisbíll og er með vélinni í miðjum bílnum og veltibúri. Burðarvirki bílsins er röragrind og ytra byrði er úr trefjaplasti. Vélin er frá Renault. Hún er tveir lítrar að rúmtaki með túrbínu að sjálfsögðu og skilar 245 hestöflum og þyngdin er í kringum eitt tonn. Viðbragð bílsins úr kyrrstöðu í hundraðið er sagt undir sex sekúndum og hámarkshraðinn 245 km á klst. Við vélina er sex gíra gírkassi, einnig frá Renault.
Lada Niva jepplingurinn alltaf eins - og Lada 1118.