Rússnesk snilldarhönnun
Nú stendur bílasýningin í Genf sem hæst – sú sýning sem ávallt er helsti vettvangur evrópskra bílaframleiðenda til að viðra nýjungar og framtíðarhugmyndir. Eina athyglisverðastu hugmynd að nýjum borgarbíl sem fram hefur komið mjög lengi er þó ekki að finna á sýningunni í Genf. Það er rússneski hugmyndarbíllinn eða frumgerðin Mirrow Provocator.
Hönnun þessa borgarbíls er svo sérstæð og jafnframt svo þrauthugsuð og skynsamleg að furðu vekur og maður spyr hversvegna engum hefur dottið neitt þvílíkt í hug fyrr? Sjálfur bíllinn er að 50 prósenthlutum úr endurnýttu plasti og hannaður þannig að í honum getur hvort heldur sem er verið brunahreyfll, rafmótor, tvíorkuvélbúnaður eða vetnisvél. Grunnvélin er þó þriggja strokka 1,5 l besínvél sem sögð er skila honum í hundraðið á 9 sek. Og á 140 km hraða mest. Drifið er á framhjólunum. Og til að taka sem minnst pláss í umferðinni er lengd bílsins nokkurnveginn sú sama og á Smart Fortwo eða 2,97 m.
En gagnstætt Smart Fortwo er Provocator fjögurra manna bíll en ekki tveggja eins og Smart. Því ná hönnuðirnir með því að hafa ekki sérstaka farangursgeymslu í honum heldur er gert ráð fyrir farangrinum í miðganginum milli stólanna fjögurra. Því er breiddin talsverð eða 1,98 m. Provocator er mjög hábyggður eða 2,05 m á hæð. Gengið er inn í hann og út um dyr á afturgaflinum og er rennihurð þar til að hægt sé að komast inn og út þótt búið sé að leggja bíl þétt aftan við hann. Dyr eru einnig á sinni hvorri hliðinni en þær eru fyrst og fremst hugsaðar sem neyðardyr.
Ekkert er vitað hvort þessi snilldarlega hannaði borgarbíll verði nokkru sinni fjöldaframleiddur heldur lendi í glatkistunni eins og svo margar aðrar góðar hugmyndir hafa gert, eins og t.d. þriggja manna borgarbíllinn T25 sem ofurbílahönnuðurinn Gordon Murray hannaði á sínum tíma.