Rykbinding hafin á helstu stofnbrautum
Styrkur svifryks var hár á höfuðborgarsvæðinu í gær og er varað hefur verið við svifryki næstu daga. Hjá Hreinsitækni fengust þær upplýsingar að stofnbrautir í gegnum borgina hefðu verið sópaðar fyrir Vegagerðinni síðustu daga. Má þar nefna Miklubraut, Kringlumýrarbraut og Reykjanesbraut. Síðan kólnaði nokkuð í veðri sem kom í veg fyrir að verkið klárist að fullu. Rykbinding er hafin á helstu stofnbrautum og verður framhaldið í nótt.
Það vekur athygli hversu seint sveitarfélögin á Höfuðborgarsvæðinu grípa til aðgerða í ljósi þess að í aðdraganda síðustu helgar voru mjög góð veðurfarsleg skilyrði til að sópa og hreinsa götur og göngustíga. Vegagerðin var á varðbergi en ráðamenn sveitarfélaganna héldu að sér höndum. Við erum ekki bara að tala um setlög og loftgæðavandamál á og við stofnbrautirnar á Höfuðborgarsvæðinu, fíngerður sandur liggur víða í miklu magni á götum í íbúðahverfum og einnig á göngustígum og stéttum. Um er að ræða þekkt vandamál og ekki hægt að skýla sér á bak við það að ekki sé komið að hreinsunardögum. Mikið sparast þegar ekki þarf að standa í snjóhreinsun og hálkueyðingu og þá á auðvitað að taka fram sópunar- og hreinsigræjurnar. Hitt er einnig alvarlegt að það skortir mjög á kröfur til verktaka á byggingarsvæðum að byrgja efnishauga og rykbinda athafnasvæði. Það þarf einnig að gera kröfur um hreinsun vörubíla sem bera efni til og frá byggingasvæðum og rykbindingarbúnað á gröfur og vinnuvélar.
Magnesíum klóríði verður notað í verkefnið sem reynst hefur vel til rykbindingar. Úðað verður á stofnbrautir í Reykjavík og fleiri fjölfarnar götur eins og Bústaðaveg, Suðurlandsbraut og Grensásveg.
Ýmsir þættir eru þess valdandi að styrkur svifryks hækkar. Í því sambandi er hægt að benda á hálkuvarnir sem þyrla upp setlögum með tímanum og ennfremur berst mikið ryk frá óvörðum byggingarsvæðum og þungum vörubílum sem bera aðföng að og frá byggingasvæðum innan um þétta byggð.
Styrkur svifryks (PM10) var hár í gær skv. mælingum í mælistöðvum við Grensásveg, Njörvasund/Sæbraut. Klukkan 14:00 í gær var klukkutímagildi svifryks við Grensásveg 119,0 míkrógrömm á rúmmetra. Í mælistöð við Njörvasund/Sæbraut var klukkutímagildið á sama tíma 106,4 míkrógrömm á rúmmetra og í mælistöð við Egilshöll 33,4 míkrógrömm á rúmmetra.
Í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum var svifryksgildi 13,1 míkrógrömm á rúmmetra. Vindur hefur verið hægur og kalt, götur þurrar og ekki líkur á úrkomu. Næstu daga er búist við svipuðum veðurfarsaðstæðum. Sólarhringsheilsuverndarmörkin fyrir svifryk eru 50 míkrógrömm á rúmmetra. Svifrykið hefur slæm áhrif á heilsu þeirra sem þjást af astma og öndunarfærasjúkdómum.