Sá mengunarminnsti?
Ford í Evrópu boðar nú nýja gerð af heimilisbílnum Ford Focus með bensínvél sem setur nýjan staðal í CO2 útblæstri. Í akstri gefur hún frá sér minna en 100 grömm af CO2 á kílómetrann. Í frétt frá Ford segir að þetta sé fyrsti bensínknúni fjölskyldubíllinn í Evrópu sem blæs frá sér undir 100 grömmum á kílómetrann. Bíllinn kemur á markað fljótlega upp úr næstu áramótum.
Risaskref hafa verið tekin sl. 15 ár í því að draga úr CO2 útblæstri hjá Ford Focus. Ford Focus Mk1 hafði 1,6 l vél var ámóta öflug en verulega eyðslu-frekari en sú sem verður í nýja Fókusinum sem kemur eftir áramótin. |
Þessi nýja vél í Focus er 1,0 –lítrar að rúmtaki og nefnist EcoBoost. Uppgefin eyðsla hennar er 4,3 l á hundraðið og aflið er 100 hestöfl. Þessi góða nýtni á eldsneytinu næst m.a. með túrbínu og gangstjórnunarkerfi sem nefnist ECOnetic-Technology.
Sá góði árangur í því að koma eyðslu og mengun niður í dísilvélunum hefur nokkuð sett bensínvélina í skuggann undanfarin ár. En bíltæknifólk hefur lengi haldið því fram að í þessum efnum eigi bensínvélin mikið inni. Það hefur reyndar verið að koma í ljós undanfarin ár og mánuði með nýjum tveggja strokka vélum Fiat, hjá Mazda og Volvo o.fl. Það eru nefnilega ekki svo mörg ár síðan flestir töldu útilokað að koma útblæstri meðalstórs eða stórs fóksbíl niður fyrir 100 grömm á kílómetrann og eyðslunni niður undir fjóra lítra á hundraðið.