Sá öruggasti til þessa
Hinn nýi Volvo XC90 er öruggasti bíll sem árekstursprófaður hefur verið af EuroNCAP til þessa. Þetta er niðurstaðan í nýafstaðinni prófunarlotu hjá EuroNCAP. Prófað var eftir nýjum og mun hertari reglum en áður hefur verið gert. Segja má að niðurstaðan setji ný viðmið fyrir öryggi og árekstrarþol bíla. XC90 hlaut fullt hús stiga fyrir öryggisbúnað eða 100%.
Bíllinn sýndi sig í prófuninni að vera mjög öruggur fyrir bæði börn og fullorðna að ferðast í. Hann er jafnframt búinn öllum nýjasta og fullkomnasta rafeindabúnaði eins og mið- og kantlínulesara, hraðatakmarkara og sjálfvirkri nauðhemlun (AEB) sem samkvæmt nýju reglunum verður að vera til staðar í bíl til að hann geti yfirleitt fengið fimm stjörnur – til viðbótar við loftpúðana, ABS hemlana og ESC skrikvörnina. Í raun er því stigagjöfin tveggja þátta: Annarsvegar öryggisbúnaðurinn, hins vegar styrkleiki og árekstursþol. Í báðum þessum meginþáttum fær Volvóinn fullt hús sem tryggir honum hæstu öryggiseinkunn sem EuroNCAP hefur gefið nokkru sinni. Volvóinn hefur þar með slegið út þann bíl sem áður, samkvæmt eldri reglunum að vísu, sat í fyrsta sætinu, en það var hinn kínversk-sænski Qoros.
En þótt Volvo XC90 hafi komið frábærlega út þá voru þeir fleiri bílarnir sem prófaður voru að þessu sinni. Allir stóðu þeir sig vel. Enginn fékk minna en fjórar stjörnur. Upp á fimmtu stjörnuna vantaði búnað eins og Kantlínu/miðlínulesara eða hraðatakmarkara sem "les" hraðaskilti og lækkar sjálfvirkt hraðann til samræmis við skiltin meðfram vegunum.
Fjögurra stjörnu bílarnir voru einungis tveir. Þeir voru þessir:
Mazda CX-3
Mitsubishi L200
Fimm stjörnu bílarnir voru sex. Þeir voru:
Volvo XC90Toyota AvensisVW TouranAudi Q7Ford Galaxy/Ford S-Max Renault Kadjar