Sá stærsti í 80 ár samfleytt
General Motors, sem nú í annað sinn á rúmu ári hefur orðið að eftirláta Toyota efsta sætið yfir stærstu bílaframleiðendur heimsins var samfleytt í 80 ár stærsti bílaframleiðandinn. En fleiri sækjast eftir efsta sætinu því að stjórn Volkswagen hefur lýst því markmiði að verða stærst innan fárra ára.
En GM, sem Toyota og Volkswagen keppa við um efsta sætið er ekkert venjulegt fyrirbæri. GM byggir á mjög gömlum merg og innan samsteypunnar rúmast enn mjög mörg bílamerki þótt mörg hafi verið höggvin frá síðustu árin. Innan GM eru enn Chevrolet, GMC, Cadillac og Buick í Bandaríkjunum, Kína og Rússlandi og víðar, Opel/Vauxhall í Evrópu og Holden í Ástralíu. Þá var Saab í Svíþjóð, sem nú er gjaldþrota, fyrir ekki svo löngu alfarið í eigu GM.
Hinir þrír stóru í Bandaríkjunum (GM, Ford og Chrysler) hafa tapað markaðshlutdeild á heimamarkaðinum allt frá því að japanska bílainnrásin hófst fyrir alvöru upp úr 1960. En fjármálakreppan sem brast á 2008 í USA og algert hrun í sölu nýrra bíla árið eftir, var risunum þremur (GM, Chrysler og Ford) einna hættulegust þeirra áfalla sem yfir hafa dunið og reið GM og Chrysler næstum að fullu. En björgunarpakkar stjórnvalda náðu að bjarga frá gjaldþroti og með nýjum og sparneytnari gerðum bíla (m.a. frá Opel), eins og Chevrolet Malibu, sem myndin er af, rafbílnum Chevrolet Volt, landvinningum í Asíu og Rússlandi og nýjum stjórnendum, hefur álit GM vaxið á ný, salan aukist og afkoman stórbatnað.