Saab 9-3 endurfæðist
Saab bílaverksmiðjan í Trollhattan, í Svíþjóð er að komast í gang á ný. Líklegt má telja að bílaframleiðslan hefjist fyrir alvöru á nýju ári. Þá verður byrjað þar sem frá var horfið vorið 2011 að framleiða hinn gamlakunna Saab 9-3 fólksbíl. Búið er að stilla verksmiðjuna og gera hana tilbúna og byggðir hafa verið tveir Saab 9-3 bílar. Það sem kemur í veg fyrir að hægt sé að byrja framleiðslu á fullum afköstum er að ólokið er samningum við undirframleiðendur og við dreifingar- og söluaðila.
Það er kínversk-sænska félagið NEVS (National Electric Vehicle Vehicle Sweden) sem nú á verksmiðjuna í Trollhattan. Upphaflegt markmið félagsins var að framleiða rafknúna Saab bíla. Forstjóri NEVS segir við Netmiðilinn The Detroit Bureau að framleiðslan komist vonandi í gang fyrir áramót.
Saab bílaframleiðslan hófst árð 1947. Fyrstu árin voru Saab bílar með þriggja strokka tvígengisvélum svipuðum þeim sem síðar voru í austurþýsku Wartburg bílunum. Tvígengisvélin var leyst af hólmi af V4 fjórgengisvél frá Ford. General Motors eignaðist stóran hlut í Saab árið 1989 og eignaðist síðan Saab að fullu árið 2000. Enda þótt Saab bílarnir þættu alla tíð góðir og traustir gekk reksturinn ekki nógu vel og árið 2009 stöðvaðist hann. Þegar þar var komið sögu geystist Hollendingurinn Victor Muller, eigandi lítillar sportbílaverksmiðju, Spyker, fram á sjónarsviðið og keypti hið aðframkomna fyrirtæki. Þar með hófst nýtt dauðastríð sem endaði með gjaldþroti á síðari hluta árs 2011.