Saab að nálgast endalokin?
Í gærkvöldi kom út í Svíþjóð skýrsla um afkomu Saab á fyrrihluta ársins. Samkvæmt henni er rekstrartapið 1,8 milljarðar sænskra króna en veltan 3,3 milljarðar sænskra króna. Ekkert kemur fram um að nýtt fjármagn sé í vændum inn í fyrirtækið og enn liggur framleiðsla og þar með sala nýrra bíla niðri og enn fá starfsmenn engin laun greidd. Nú er svo komið að á morgun, föstudag, geta starfsmennirnir sett fyrirtækið í gjaldþrot.
Engin framleiðsla hefur átt sér stað í verksmiðju Saab í Trollhattan síðan í apríl í vor og því þarf rekstrartapið mikla svosem ekki að koma á óvart. Victor Muller forstjóri og aðaleigandi Saab hefur undanfarna mánuði leitað með logandi ljósi að nýju fjármagni og fjárfestum og verður varla sagt að hann hafi haft erindi sem erfiði þótt kínversk fyrirtæki í framleiðslu og dreifingu bíla hafi vissulega verið nefnd til sögunnar sem samstarfsaðilar og jafnvel meðeigendur. Og nú virðist úrslitastundin að renna upp. Verði ekkert nýtt fjármagn fast í hendi fyrir lok morgundagsins, föstudagsins 2. sept. liggur fátt fyrir annað en gjaldþrot. Um leið og gjaldþrotsmeðferð fer í gang losnar fé úr sænska launatryggingasjóðnum og starfsmenn fá útistandandi laun sín greidd. Sjá hér skýrsluna sem PDF-skjal